Landsréttur hafnar áfrýjunarbeiðni Hildar

Þann 24. júní sendi Landsréttur frá sér svar varðandi umsókn Hildar um áfrýjun á máli sínu. Engum að óvörum var áfrýjunarbeiðninni hafnað, líkt og í máli Borysar og Kára.

Í áfrýjunarbeiðni Hildar voru færð rök fyrir því að lögreglan og héraðsdómur hafi skert tjáningarfrelsi hennar á ólögmætan hátt með því að beita og túlka 19. grein lögreglulaga nr. 90/1996 ranglega. Með því að vísa í mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands sem og með því að útvega fjölda dóma um svipuð mál frá Mannréttinda dómstóli Evrópu færði Hildur rök fyrir því að réttur hennar til að mótmæla hefði einnig verið skorinn of þröngur stakkur. Einnig benti hún á og færði sönnur fyrir því hvernig brotið var á rétti hennar til réttlátrar málsmeðferðar þar sem a) verjanda hennar var neitað um aðgang að öllum gögnum málsins, b) að ákæruvaldið hafi ekki svarað spurningum verjanda um hvres vegna ákæruvaldið sniðgekk 143. gr í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 þegar mál Hildar og hinna 4 sem handtekin voru í sömu mótmælum voru slitin í sundur og c) að ákæruvaldið neitað Hildi um umbeðinn verjanda án nokkurra skýringa.

Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Jón Höskuldsson og Kristbjörg Stephensen ákváðu þann 24. júní 2021 að ekkert af þessu væri mikilvægt og að ekki væri líkur til þess að niðurstöðu héraðsdóms yrði breytt. Þau telja að ekki að um sé að ræða mikilvæga hagsmuni fyrir Hildi, án þess þó að færa nokkur rök fyrir því hvers vegna svo sé ekki.

Þá hefur öllum áfrýjunarbeiðnum í dómsmálaráðuneytismálinu verið hafnað, nema áfrýjunnarbeiðni Elínborgar sem Landsréttur verður að taka til greina þar sem refsingin varðaði fangelsisdóm.