Braut lögreglustjóri lög um meðferð sakamála?

Líkt og áður hefur verið fjallað um í annarri færslu á þessari síðu eru til lög um meðferð sakamála þar sem tekið er sérstaklega fram að í málum þar sem „fleiri menn en einn eru sóttir til saka fyrir þátttöku í sama verknaði, skal það gert í einu máli, nema annað þyki hagkvæmara“, en þetta á jú fullkomlega við 19. greinarmálin. Þar voru allir aðilar sóttir til saka fyrir þátttöku í nákvæmlega sama verknaði. Því er að furða að lögreglustjórinn ákvað að höfða sex mismunandi mál í staðinn fyrir tvö (eitt fyrir setuverkfallið í dómsmálaráðuneytinu og annað fyrir mótmælagjörninginn fyrir utan Alþingi). Eftirfarandi fyrirspurn var send á Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, þann 18. ágúst síðastliðinn:

***

Efni: Túlkun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (ákæruvalds) á 143. grein laga 88/2008 um meðferð sakamála.

Undirrituð voru í hópi “5-menninganna” sem lögregla handtók í anddyri Dómsmálaráðuneytisins, vegna mótmælasetu þar, 5.apríl 2019 og í framhaldinu ákærð og dæmd sek í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hinn meinti saknæmi verknaður var nákvæmlega sá sami hjá öllum okkar, eins og ákærurnar bera reyndar með sér.

Í lögum um meðferð sakamála 88/2008, grein 143 segir: „Ef fleiri menn en einn eru sóttir til saka fyrir sama verknað, skal það gert í einu máli, nema annað þyki hagkvæmara“ og 33. gr. sömu laga hljóðar svo: „Nú eru einn eða fleiri en einn maður hafður fyrir sökum í sama máli og er þá heimilt að skipa eða tilnefna sama mann verjanda beggja eða allra, ef telja má að hagsmunir þeirra rekist ekki á“.

Við teljum að ákærusvið lögreglustjóra hafi virt að vettugi 143. greinina, með því að gefa út eina og eina samhljóða ákæru, með nokkurra mánuða millibili hverja, þannig að þingfesting og dómþing var haldið yfir hverju og einu okkar á mismunandi tíma og leið rúmt hálft ár milli fyrsta og síðasta dóms, en nákvæmlega sami málatilbúnaður var til meðferðar í öll 5 skiptin. Ljóst mátti vera að þessi vinnubrögð ákæruvaldsins leiddu til verulegs aukins lögmannskostnaðar fyrir ákærðu þar sem fram þurfti að fara sjálfstæð aðalmeðferð, gagnaframlagning og þinghald í hverju einstaka máli sem þó voru að meginstefnu til samhljóða. Að sama skapi er heldur ekki að sjá að það hafi verið hagkvæmara að nokkru leyti að sækja fimm aðskilin mál með þeim mikla óþarfa kostnaði sem slík háttsemi hafði í för með sér fyrir ríkissjóð. Skal þar nefnt að kalla þurfti inn fjölda lögregluþjóna, fimm sinnum, úr öðrum störfum sínum, til að mæta í dómssal og endurtaka sífellt sama vitnisburð fyrir dómara svo og þurfti saksóknari að sjálfsögðu að flytja mál sitt fimm sinnum í stað einu sinni.

Með tilliti til framangreinds er ekki að sjá að nokkur hafi haft hag af þessari ákvörðun ákæruvaldsins og óskum við því eftir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu rökstyðji skriflega þá ákvörðun að falla frá meginreglu 143.gr. laga númer 88/2008 við útgáfu ákæra á hendur okkur og þá á hvaða forsendum beiting “hagkvæmnisheimildar” hafi þótt eiga við í málinu.


Er þessi ósk byggð m.a. á 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að aðili máls geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega, hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt. Þá má benda á að aðilum málsins var ekki tilkynnt um það þegar ákvörðunin var tekin, þvert á 20. gr. sömu laga.


Við leggjum áherslu á að erindi okkar verði svarað innan 14 daga frá því að embættinu berst þessi fyrirspurn, líkt og kveður á um í 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en að öðrum kosti er áskilinn réttur til að kæra þann drátt sérstaklega.

Undirrituð,

Borys Andrzej Ejryszew, Elínborg Harpa Önundardóttir, Hildur Harðardóttir, Hjálmar Karlsson og Kári Orrason.

***

Forvitnilegt verður að sjá hvort lögreglustjóri bregðist við þessari fyrirspurn, en embættið hefur enn ekki staðfest móttöku erindisins líkt og beðið var um.