Frumgögnum í máli Héraðssaksóknara gegn Jórunni Eddu og Ragnheiði Freyju var haldið frá verjendum þeirra. Þetta kemur fram í umfjöllun stundarinnar í dag, þriðjudag.
Skjölin sem ekki var deilt með verjendum eru hljóðupptökur úr skýrslutökum yfir vitnu málsins. Páll Bergþórsson, annar verjenda kvennanna, segir það „mjög sérstakt“. Í stað hljóðupptaka fengu verjendur aðeins ónákvæm endurrit og endursagnir lögreglunnar úr skýrslutökunum. „Lögmennirnir þurftu að fara niður á skrifstofu héraðssaksóknara“ til þess að hlusta á skýrslutökurnar, segir í umfjöllun Stundarinnar, en fengu ekki að geyma afrit af þeim.
Þegar hlýtt var á skýrslutökur kom í ljós gegnumgangandi misræmi, þar sem lögreglumenn virtust hafa lagt vitnum orð í munn. Með orðum Stundarinnar: „Á upptökunum megi heyra lögreglumenn spyrja afar leiðandi spurninga, sérstaklega þegar kemur að spurningum varðandi það hvort aðgerð kvennanna hafi með einhverjum hætti raskað öryggi vélarinnar. Í endurriti af skýrslutökunum sé hinsvegar engu líkara en að staðhæfingarnar hafi komið beint frá vitnunum sjálfum.“