Öskudagur í Héraðsdómi

Strax á miðvikudagskvöld vorum við spurð hvers vegna ekkert hefði birst hér frá réttarhöldunum þann daginn. Svarið er þreyta. Nú hefur gefist nokkur tími til að hlaða batterí, og hér kemur fyrsta frásögn okkar af deginum. Síðar meir viljum við fylla upp í frásögnina, bæði í gjár og glufur, málflutningur fyrir rétti snýst ekki síst um smáatriðin.

Byrjum á að endurtaka það sem við sögðum þó á Facebook þegar við lok þessa forvitnilega öskudags: „Með öllum nauðsynlegum fyrirvörum, og innrammað af þessari andstyggðarmálsókn, er varla hægt að hugsa sér betur heppnaða dagstund í réttarsal. Verjendateymið er fyrsta flokks, Jórunn og Ragnheiður stóðu sig óaðfinnanlega. Sama verður varla sagt um þá lögreglumenn sem urðu uppvísir að berum ósannindum sem þegar má lesa um í fréttum. En það voruð þið, kæru vinir og félagar, sem breyttuð degi sem hefði getað verið ömurlega þungur í eitthvað allt annað: dómsalurinn var þaulsetinn frá upphafi klukkan níu að morgni til klukkan að ganga fimm í eftirmiðdag. Færri komust að en vildu, þá sjaldan að sæti losnaði fyllti einhver sem beið fyrir utan í skarðið. Og þegar málflutningi verjenda lauk, með áherslu á réttinn til mótmæla og þá lögbundnu skyldu að bjarga mannslífi sé þess kostur, flýtti sér enginn á fætur, ekki einu sinni tóbaksfíklum lá á að koma sér út, það var helst eins og salinn langaði að klappa og biðja um meira!“

Í stystu máli: Takk.

Ákæruliðirnir

Að því sögðu er tímabært að reifa ákæruliðina. Eins og alkunna er stigu Jórunn Edda og Ragnheiður Freyja um borð í farþegaflugvél á leið frá Keflavík þann 26. maí 2016. Þegar þær voru komnar um borð stóðu þær upp, ávörpuðu farþega og biðluðu til þeirra að standa upp líka og setjast ekki fyrr en Eze Okafor hefði verið fluttur frá borði, en fyrir lá að honum yrði að óbreyttu brottvísað með þessu flugi.

Fyrir þetta var þeim tveimur og hálfu ári síðar birt ákæra í þremur liðum. „Telst háttsemi ákærðu varða“, eins og það heitir í ákæruskjalinu, þrjár lagagreinar. Fyrst fer þar 2. málsgrein 106. greinar hegningarlaga:

„Sá sem tálmar því á annan hátt að handhafi lögregluvalds eða tollgæsluvalds gegni skyldustörfum sínum skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum“.

Síðan er nefnd til sögunnar 168. grein hegningarlaga:

„Ef maður raskar öryggi … loftfara … þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum“.

Til vara, það er ef ekki þykir sýnt að verknaðurinn hafi raskað öryggi loftfarsins, teflir embættið fram 176. grein sömu laga:

„Ef maður veldur með ólögmætum verknaði verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja … þá varðar það … fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef málsbætur eru“.

Loks er í ákæruskjalinu talin 3. málsgrein 42. greinar laga um loftferðir:

„Farþegum er skylt að fara eftir fyrirmælum flugstjóra eða annarra flugverja um góða hegðun og reglu í loftfari“

og vísað til 141. greinar sömu laga um refsirammann, en þar er brot sagt nema allt að fimm árum.

Þrír ákæruliðir, einn til vara, og úr verður það hlutverk ákæruvaldsins fyrir dómi að sýna að Jórunn og Ragnheiður hafi, þann 26. maí 2016, með því að standa upp og tala um borð í kyrrstæðri flugvél, aftrað lögreglu við störf; raskað öryggi loftfars, eða að minnsta kosti valdið verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja; og óhlýðnast fyrirmælum flugverja.

Vörnin

Í málflutningi, undir lok dags, lögðu verjendur áherslu á að í heild sinni snýst málið um grundvallaratriði, það er réttinn til mótmæla og þá siðferðilegu skyldu sem bundin hefur verið í lög, að koma fólki í lífshættu til hjálpar. Vörnin grundvallast hins vegar um leið á því að hrekja tengsl hvers ákæruliðar við hina raunverulegu atburðarás: athafnir Jórunnar og Ragnheiðar um borð í vélinni hafi ekki ógnað öryggi loftfarsins, né hafi truflunin sem þær ollu verið veruleg; ekki sé sýnt að Jórunni og Ragnheiði hafi verið kunnugt um að lögreglumenn fylgdu Eze um borð í flugvélinni sjálfri, og þar með ekki sýnt að þær hafi ætlað sér að hindra embættismenn við störf; og að hafi flugverjar veitt tvíeykinu einhver fyrirmæli áður en þeir hófu að beita þær valdi, ásamt farþegum og síðar lögreglu, þá sé hvorki ljóst að þau fyrirmæli hafi komist til skila, né að Jórunni og Ragnheiði hafi verið skylt að hlýðnast fyrirmælum flugfreyja í loftfari sem enn er á jörðu niðri.

Við sem skrifum um þessi efni fyrir vefinn Að standa upp erum vissulega ekki hlutlaus aðili að málinu. Það voru ekki heldur vitnin sem ákæruvaldið hafði úr að spila: starfsmenn Icelandair, fyrirtækisins sem lagði fram upphaflegu kæruna gegn konunum, og lögreglumennirnir sem framkvæmdu brottvísun Okafor Eze. Enginn farþegi bar vitni gegn Jórunni og Ragnheiði. Okkur virtist satt að segja ekki standa steinn yfir steini í málflutningi ákæruvaldsins.

Við munum greina frá framvindu málsins fyrir Héraðsdómi á næstunni, lið fyrir lið. En við þurfum að vanda okkur og við þurfum að hvílast. Í millitíðinni er vert að nefna að blaðamaður Vísis dvaldi í dómsal frá upphafi þessa dags til enda. Hér er ein þeirra frétta sem hún skrifaði þaðan, undir fyrirsögninni „Segir lögreglu hafa haft ánægju af því að pína sig“. Þar kemur meðal annars fram að lögreglumaður og vitni ákæruvaldsins varð á miðvikudag, fyrir dómi, uppvís að berum ósannindum.