„Þrjár manneskjur fóru blóðugar út úr þessari vél: Jórunn, Freyja og Eze“ —Jórunn Edda og Benjamín Julian í Harmageddon

Nú að morgni þriðjudagsins 5. mars 2019 tók Frosti Logason viðtal við Jórunni Eddu í þættinum Harmageddon á X-inu. Ásamt Jórunni mætti Benjamín Julian í viðtalið, sem hefur, líkt og Jórunn og Ragnheiður Freyja, um árabil verið burðarás í baráttu fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi. Þau ræddu málshöfðunina gegn Ragnheiði og Jórunni, aðgerðina sem ákært er fyrir, og tilefni mótmæla flóttafólks á Íslandi sama morgun. Hér á eftir birtum við texta viðtalsins nær því í heild sinni, en upptakan sem birtist á vef Vísis stöðvaðist áður en því lauk.

Meðal þess sem Frosta brá greinilega við að heyra var að stjórnvöld bönnuðu heimsóknir fólks, þar á meðal blaðamanna og fjölmiðlafólks, í húsnæði hælisleitenda og fylgdu því banni eftir með öryggisgæslu. Banninu er framfylgt óháð því hvort íbúar hafa sjálfir boðið gestunum til sín eða ekki. „Má þetta?“ spurði Frosti.

Jórunn reifar atburðarásina 26. maí 2016

Frosti byrjaði á að kynna tilefni viðtalsins, að á morgun, miðvikudaginn 6. mars, hefst aðalmeðferð í máli No Borders-liðanna Jórunnar og Freyju.

FL: Jórunn, segðu hlustendum hvað það var sem gerðist.

JE: Það var í maí 2016, sem vinur okkar Ragnheiðar Freyju, það átti að brottvísa honum eftir að vera búsettur hér í fjögur ár.

FL: Það er Eze Okafor?

JE: Eze Okafor, já. Hans mál hafði velkst um í kerfinu mjög lengi. Kærunefnd útlendingamála, æðra stjórnvald en Útlendingastofnun, hafði slegið af þessa ákvörðun Útlendingastofnunar um að brottvísa honum, sagði að það væri of langt um liðið og mætti ekki lengur. En Útlendingastofnun ákvað að fara gegn því, brottvísa honum samt sem áður. Það var gert hratt og örugglega. Hann var handtekinn og sendur úr landi á innan við sólarhring.

FL: Þið teljið í rauninni að brottvísunin hafi verið ólögleg miðað við þennan úrskurð?

JE: Já, algjörlega. Fólk kom saman á mettíma og mótmælti þessu bæði við Innanríkisráðuneytið og lögreglustöðina þar sem honum var haldið. Það var reynt að hafa samband við það fólk sem hefði getað komið í veg fyrir þetta en tíminn var naumur og lítið hægt að gera á þessum skamma tíma. Við endum á því að fara í flugvélina sem átti að fara með hann til Svíþjóðar, þaðan sem átti að senda hann áfram til Nígeríu, þar sem hann hafði verið ofsóttur af Boko Haram og bróðir hans drepinn.

FL: Alveg rétt. Þið fóruð í flugvélina, þú og Freyja, með því að kaupa miða um borð? Og standið upp áður en að flugtaki kemur?

JE: Já og ekki bara áður en að flugtaki kemur heldur var enn verið að loka farangurshólfum og hurðin inn í vélina var enn opin. Og vélin í stæði.

FL: Hvað gerðuð þið nákvæmlega?

JE: Við bara stöndum upp og ávörpum fólk. Og erum í raun að biðja um samstöðu frá bæði farþegum og vonast til að skilaboðin komist áfram til flugstjóra, flugmanns. Flugmaður hefur alltaf í valdi sínu að ákveða að fara ekki með ákveðinn farþega. Ef hann myndi segja að hann myndi ekki fara með Eze þá yrði Eze tekinn frá borði og ekki sendur með þessari vél.

FL: Já, flugstjórinn hefur það vald. Og þið voruð að reyna að höfða til hans og annarra farþega að taka þátt í þessu?

JE: Já. Og það er í raun og veru ekkert annað sem við getum gert, nema bara að setjast ekki og tala.

„Þrjár manneskjur fóru blóðugar út úr þessari vél: Jórunn, Freyja og Eze“

BJ: Þeim er í raun bara gefið að sök að hafa staðið upp og ekki sest niður aftur þegar þeim var sagt að setjast niður. Það er álitinn stóri glæpurinn hérna. Það voru þrjár manneskjur sem fóru blóðugar út úr þessari vél, það voru Jórunn, Freyja og Eze. Og það má ekki gleyma því að hann var lurkum laminn og mikið kvalinn á þessari leið. Hann þurfti til dæmis, sagði hann mér þegar hann lenti, að pissa alla leiðina til útlanda en mátti það ekki fyrr en búið var að tæma vélina á komustað, þá þurfti hann að pissa í handjárnum, án aðstoðar, með opnar dyr og lögreglumann standandi yfir sér. Þetta er það sem hann þurfti að ganga í gegnum og það er ekki dæmt fyrir það. Jórunn og Freyja voru dregnar út úr vélinni, það er ekki dæmt fyrir það. Það sem er ákært fyrir er að þær hafi staðið upp og sagt: getum við aðeins beðið með þetta, það á ekki að brottvísa honum.

JE: Í raun og veru er ákæran mjög illa unnin og skringileg.

FL: Hvað nákvæmlega eruð þið ákærðar fyrir?

JE: Við erum ákærðar fyrir að raska öryggi flugvélarinnar. Þetta er svona almannahættubrot. Hámarksrefsing við því er 6 ára fangelsi.

FL: Er saksóknari að fara fram á það?

JE: Já. Og síðan eru svona önnur minni brot sem er ákært fyrir, reyndar til vara líka að valda verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja. Ég veit ekki hvort að það er eitthvað styttra seilst en þessi grein um öryggi flugfarsins.

FL: Eru þetta margar greinar sem er búið að safna saman og ykkur er ætlað að hafa brotið?

JE: Það eru þrjú brot og eitt til vara. Þetta með að raska öryggi loftfara, tilraun til að tálma lögreglu við störf, og úr lögum um loftferðir, að fara ekki að fyrirmælum flugverja.

BJ: Það má ekki gleyma í svona laganurli að það sem skiptir máli hérna er að manneskjur eru að reyna – við vitum alveg hvernig farið er með flugdólga, það er hlegið að þeim og þeir bara látnir labba út og sofa úr sér. Það sem skiptir máli hérna er hver pólitíski tilgangurinn með þessari ákæru er. Hann er mjög skýr. Að hindra það að svona samstaða verði sýnd aftur. Og þetta er ekki bara á Íslandi, þetta er eitthvað mynstur sem er að koma fram í Evrópu núna, þegar fólki líður almennt illa, það er mikil pólitísk óreiða í Evrópu og þá langar yfirvöld að koma sökinni þangað sem þeim finnst þægilegt að hafa hana. Og það er auðveldast að geyma hana á útlendingum.

Málshöfðun sem pólitískt verkfæri yfirvalda til að brjóta upp samstöðu

FL: Þið túlkið þetta þannig að þetta sé pólitískt verkfæri yfirvalda til að brjóta upp þessa samstöðu?

BJ: Bara almenn stemning í pólitísku stéttinni í Evrópu og á Íslandi. Ég hef setið á stjórnýslufundum á Íslandi og séð hvernig talað er um útlendinga hérna, svona þegar búist er við að hlutir fari ekki í blöðin. Og það er alveg augljóst að þegar tækifærið býðst þá er útlendingum kennt um frekar en heimamönnum. Og fólkið sem sýnir þeim samstöðu, það fólk er bara álitið svikarar við kynstofninn sinn.

FL: Og þeim er refsað?

BJ: Já. Og þegar ég segi við kynstofn, auðvitað talar enginn svona lengur árið 2019. En stemningin er mjög greinilega sú að við þurfum að passa fallegu Evrópuna okkar fyrir allri óreiðunni sem er fyrir utan, og við viljum bara að halda henni í burtu með því að hindra það að fólk sé eitthvað að aðstoða fólk við að smygla sér inn í góðu heimsálfuna.

JE: Já, þetta er svolítið lína sem hefur verið tekin, reyndar ekki bara um Evrópu heldur á öllum Vesturlöndum, að fyrir samstöðu með flóttafólki, farandverkamönnum og öðru fólki sem kemur lengra að, skuli refsað. Til dæmis má nefna þetta stóra mál nýverið í Bretlandi, Stansted-málið. Okkur var birt ákæra á sama degi og Elin Ersson í Svíþjóð. Þó að hún hafi ekki hlotið þungan dóm þá er þetta náttúrulega líka svolítið notað sem tæki, réttarhöld sem refsing –

FL: Táknrænt. Og hvernig fór þetta með þessi fimmtán á Stansted?

JE: Þau fengu sektardóm en hann var mjög vægur líka.

FL: Og það er líka með mál Hauks Hilmarssonar og Jasons, þeir fengu dóm sem síðan var lækkaður og á endanum ekki framfylgt eða hvað. Eins og – hvernig túlkið þið þetta?

JE: Dómurinn í sjálfu sér virðist minna atriði en þetta, að draga fólk gegnum kerfið og réttarhöld, láta það þurfa að eyða öllum þessum tíma og orku í það þá.

FL: Og peningum, kannski?

JE: Og peningum, já, algjörlega. En við reynum bara að hafa gaman að þessu og senda yfirvöldum fingurinn með því. Við héldum meðal annars tónleika á sunnudaginn og komum til með að vera með fleiri tónleika af þessu tilefni, bæði til fjáröflunar og til að koma saman og hafa gaman.

FL: Ef við ímyndum okkur að hinum megin segi einhverjir: lögin eru bara svona og við getum ekki látið það óátalið, ef ákveðnar greinar laga eru brotnar verðum við að fylgja því eftir …

BJ: Já en hvort er hættulegra, manneskja sem er blindfull á meðan flugvélin er í flugi uppi í háloftum eða manneskja sem stendur upp og segir yfirlýst og fullkomlega meðvitað að hana langi bara til að benda á að verið sé að brjóta lög um borð? Hvort er hættulegra? Það sem er hættulegra fyrir manneskjur er fulli maðurinn í flugvélinni. En það sem er hættulegra fyrir yfirvöld er manneskja sem er að trufla það að lög og regla hafi sinn framgang í merkingunni að yfirvöld fái að koma fram við útlendinga eins og þeim sýnist.

„Aldrei yfirheyrðar fyrir þessi brot heldur fyrir tilraun til flugráns“

FL: En flugdólgum er samt sem áður refsað eða þeir saksóttir. Er það ekki rétt?

JE: Það er mjög óalgengt miðað við hversu algengt það er að séu flugdólgalæti.

FL: Já er það?

JE: Já og akkúrat, okkar lögmenn hafa verið að fara yfir það. En síðan er náttúrulega það að við teljum þessa brottvísun hafa verið ólögmæta til að byrja með. Útlendingastofnun er þarna að fara gegn ákvörðun æðra stjórnvalds, þannig að ef við ætlum að tala um að –

FL: Brjóta lög og –

JE: Já, þá var brottvísunin til að byrja með gegn lögum. Og auðvitað fær Eze aldrei tækifæri til að taka það fyrir dóm eða fá úrskurð í þeim málum og fá þessa brottvísun úrskurðaða ólöglega, vegna þess að þarna er hann fastur í Svíþjóð, í felum, að reyna að koma í veg fyrir að vera sendur áfram í fang hryðjuverkasamtaka.

FL: Og þið lítið svo á að þessi aðgerð ykkar hafi verið eina tæki ykkar til að bregðast við því broti, í raun og veru, gegn Eze?

JE: Já, algjörlega. Það var ekkert annað í boði með þennan litla tíma sem var gefinn, og engan fyrirvara á brottvísuninni. Þetta var svona síðasta úrræði.

FL: Sex ára hámarksrefsing fyrir þetta brot. Miðað við fordæmin er sennilega ólíklegt að ykkur verði gert að sæta fangelsisrefsingu. En það er samt örugglega svolítið óhuggulegt að hafa þetta hangandi yfir sér, eða hvað?

JE: Það kannski var það fyrst. Og þetta kom svolítið á óvart vegna þess að við vorum farnar að búast við að það yrði ekkert úr þessu. Okkur er birt ákæra tveimur og hálfu ári eftir að við fórum í flugvélina. Nú í október. En þegar maður fór að pæla aðeins meira í þessu, hvað við erum ákærðar fyrir, hversu langt er seilst, finnst manni þetta aðallega svolítið fyndið. Það má kannski bæta því við að við vorum aldrei yfirheyrðar fyrir þessi brot heldur fyrir tilraun til flugráns. Sem er kannski ennþá skondnara.

FL: Já. Hvernig var þetta? Þið voruð dregnar út úr vélinni og settar í fangageymslur eða hvað?

JE: Já.

FL: Og síðan yfirheyrðar daginn eftir?

JE: Nei, nokkrum klukkutímum seinna.

FL: Og þá var meinta brotið tilraun til flugráns.

JE: Já.

FL: Jahá. Voruð þið með lögmenn viðstadda þá?

JE: Það er nú reyndar svolítið fyndið að ég bað um að haft yrði samband við Ragnar Aðalsteinsson hjá Rétti fyrir mína hönd. Þeir sögðust hafa haft samband við hann. Það kemur meira að segja fram í gögnum málsins, í skýrslum, að þeir hafi fengið þær upplýsingar að hann væri ekki við vinnu þann dag. Ég fór til Ragnars daginn eftir og hann var bara á skrifstofunni allan daginn.

FL: Þannig að það lítur út fyrir að þeir hafi bara þóst hafa samband?

JE: Já, það hlýtur að vera. En já, það var einhver lögmaður sem sat við yfirheyrsluna en hafði litlar ráðleggingar eða lítið fram að færa. En þessir málaflokkar almennt, þar er margur pottur brotinn áfram. Árið 2018 fóru fram 12 brottvísanir á viku. Brottvísanir eru í sjálfu sér ofbeldisfullar og ljótur verknaður, almennt.

„Bara á síðustu viku hafa tveir flóttamenn á Ásbrú reynt að svipta sig lífi“

FL: Er þetta að aukast eða á undanhaldi? Brottvísanir?

JE: Árið á undan voru brottvísanir fleiri en þá voru líka umsóknir fleiri. Þannig að hlutfallslega eru þær svipaðar eða mögulega jafnvel örlítið að aukast. Við höfum svosem ekki nýjustu tölur.

FL: Og er þetta allt meira eða minna á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar?

JE: Þetta er mikið á grundvelli hennar. En það er svosem eitthvað af málum, jú, sem liggja ekki þar. Þar koma líka inn í mótmæli sem eiga sér stað í þessum töluðu orðum, fyrir utan Útlendingastofnun í Hafnarfirði, Bæjarhrauni.

FL: Þar er verið að mótmæla núna?

JE: Já. Og það eru flóttamenn sjálfir sem skipuleggja það. Þeir leggja fram fimm kröfur, þar á meðal áfram þetta, að Dyflinnarreglugerðin sé ekki notuð. Það hefur verið krafa gegnum mörg síðustu ár. Að brottvísunum sé hætt. En þeir gera líka bara kröfu um raunverulegan rétt á að vinna. Það er eitthvað sem flóttamenn hafa lagt mikla áherslu á gegnum árin.

FL: Að fá að vinna á meðan mál þeirra eru í meðferð?

JE: Já. Það hefur aðeins skánað af og til. En málið er að rétturinn er til staðar tæknilega, en síðan er fólk sent fram og til baka innan kerfisins og næsta ómögulegt að gera þennan rétt að veruleika. Það þarf kennitölu til að geta fengið vinnu en þarf vinnu til að fá kennitölu, til dæmis. Og fullt af þess háttar mótsögnum í ferlinu sem fólki tekst oft ekkert að vinna sig í gegnum.

FL: Er einhver ástæða fyrir því að mótmælin eru haldin á þessum tímapunkti?

JE: Já, það hefur verið mjög slæmt ástand í þessum flóttamannabúðum á Ásbrú, þar sem einangrunin er ofboðslega mikil og fólk situr í sálarkvölum og hefur ekkert fyrir stafni.

FL: Hvað eru margir flóttamenn sem dvelja á Ásbrú hverju sinni, vitið þið það?

BJ: Ég er ekki alveg viss, og það er auðvitað breytilegt því það er verið að rótera fólki inn og út allan tímann. En núna bara á síðustu viku hafa tveir flóttamenn þar reynt að svipta sig lífi. Það er tilefni mótmælanna núna. Það er ekki bara það að fólk sé að reyna að taka líf sitt, sem væri ástæða til mótmæla, heldur líka að þegar fólk sýnir fram á örvæntingu sína á svona afgerandi hátt kemur lögreglan og handtekur þau. Og lætur þau hverfa ofan í einhverja dýflissu þaðan sem heyrist ekkert frá þeim aftur.

FL: Er það tilfellið með þessa tvo sem að …?

BJ: Já, það er tilfellið með þá báða.

FL: Að þeir voru handteknir og ekkert hefur spurst til þeirra síðan?

BJ: Það er rétt. Og þetta hljómar eins og þetta sé vandamál við Ásbrú, en þetta er bara vandamál við það hvernig er komið fram við flóttamenn á Íslandi almennt. Á undan þessu heyrðum við af svona málum á Víðinesi þar sem fólk var líka geymt áður, í mjög ógeðslegu húsi. Þá gerðist það til dæmis stuttu eftir að forstjóri Útlendingastofnunar hafði talað um að Makedónar kæmu bara hingað til að sníkja bætur, þá reyndi Makedóníumaður að brenna sig til dauða fyrir utan húsið. Hann hafði kvartað ítrekað undan ástandinu þar. Á meðan verið var að hlúa að honum reyndi annar maður í húsinu að fremja sjálfsmorð. Stuttu seinna dó Makedóníumaðurinn af sárum sínum. Þetta er ástand sem hefur verið í gangi árum saman á Íslandi. Ástæðan er þessi ógeðslega einangrun og þessi viljandi útilokun frá samfélaginu, sem felst að einhverju leyti í því að fólki sé bannað að vinna, felst í því að reynt sé að aðgreina þau í skólum og kerfinu öllu. Það er reynt að halda fólki aðskildu frá samfélaginu til að geta fleygt þeim auðveldar út.

„Má þetta? Bara, semsagt, loka á fjölmiðla, að þeir geti komið og tala við flóttamenn?“

FL: Hver ber ábyrgð á þessari útilokun og aðskilnaði?

BJ: Þetta er stofnanastemning á Íslandi. En það er Útlendingastofnun sem framkvæmir hana fyrst og fremst.

JE: Og meðal krafna flóttamannanna sem mótmæla núna fyrir utan Útlendingastofnun er lokun búðanna á Ásbrú. Og síðan jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu. Þar kemur inn í, meðal annars, geðheilbrigðisaðstoð.

FL: Hvað getur komið í staðinn ef stofnun á við Ásbrú er lokað? Hvað vill fólk fá frekar?

JE: Fólk vill fá að vera innan samfélags, eiga þá beinan aðgang að samfélagi, atvinnu, sínum lögmönnum, aðstoð annarri, Rauða krossinum og fleira.

FL: Að þeim sé þá komið fyrir í félagslegum íbúðum eða eitthvað slíkt?

JE: Það þarf ekkert að koma upp sérstökum íbúðum, en bara bjóða fólki að vera búsett innanbæjar. Reyndar hafa fylgt því vandamál hvernig fólk er hýst í Reykjavík líka, til dæmis er komið í veg fyrir að fólk geti heimsótt flóttafólk þó að það búi í Reykjavík. Þar á meðal fjölmiðlar. Þetta er stefna sem Útlendingastofnun tók upp fyrir nokkrum árum.

FL: Geta fjölmiðlar ekki heimsótt flóttamenn?

JE: Nei.

BJ: Það er öryggisgæsla hjá öllum þessum húsum þar sem komið er í veg fyrir að fólk geti komið í heimsókn þó að því sé boðið þangað af fólkinu sem býr þar. Þetta er aftur, eins og ég segi, algjör stemning um að útiloka þetta fólk úr samfélaginu með öllum leiðum?

FL: Má þetta? Bara, semsagt, loka á fjölmiðla, að þeir geti komið og tala við flóttamenn?

BJ: Útlendingastofnun segist eiga húsið og hafa yfirráð yfir því. Ég vildi líka koma inn á aðgang að heilbrigðisþjónustu, því þetta er alvarlegra en þetta hljómar, þetta hljómar kannski eins og einhver tæknileg krafa. En það sem læknar hafa sagt okkur og opinberlega er að þegar flóttamenn eru loksins að koma til þeirra, eftir að hafa verið í hælisferli á Íslandi – þeir hafa verið að reyna að komast til læknis, stundum blæðandi úr eyrunum á þeim – hafa verið að reyna að komast til læknis og Útlendingastofnun hefur stundum þóst hringja fyrir þau, stundum hringt fyrir þau en síðan svona vælt í lækninum og sagt, þú veist: ég er viss um að þessi manneskja þarf ekki alvöru lækni, þau eru alltaf að gera sér upp einhver veikindi. Það eru læknarnir sjálfir sem vitna um þetta og finnst þetta ótrúleg svívirða, að þetta sé stemningin inni hjá Útlendingastofnun. Það er þá ekki skrítið að manneskjur séu með geðheilbrigðisvandamál, þegar þau eru komin úr nógu erfiðum aðstæðum fyrir, að það sé ekki verið að setja þau í einhverjar svona búðir …

FL: Og þegar þau komast undir læknishendur hafa mál þeirra kannski þróast á verri veg, það er að segja það ástand sem að –

Hér slitnaði upptaka þáttarins eins og hún birtist á vef Vísis fyrri part þriðjudags.