Flóttafólk á Íslandi boðar til mótmæla við skrifstofur Útlendingastofnunar að Bæjarhrauni 18 í Hafnarfirði á þriðjudag, 2. mars, klukkan 10:30. (Smelltu hér fyrir Facebook-viðburð mótmælanna // Click here for info in English.)
Í tilkynningu skipuleggjenda kemur fram að þetta séu þriðju mótmælin á einum mánuði. „Við höfum beðið íslensk stjórnvöld að hitta okkur og heyra kröfur okkar en uppskerum aðeins þögn sem svar.“ Þar segir að á meðan sé fólki enn brottvísað af landinu með valdi í hverri viku, „okkur er haldið í einangrun þar til við verðum þunglyndi að bráð og örvæntingu sem hefur dregið of marga til sjálfsvíga og sjálfsskaða“.
Brottvísanir eru pynting
Skipuleggjendur setja fram fimm lykilkröfur og biðja þess að þær fái að heyrast:
- Ekki fleiri brottvísanir —brottvísanir eru pynting.
- Hver og ein umsókn verði tekin til efnislegrar skoðunar, Dyflinnarreglugerðin sé ómanneskjuleg og gölluð.
- Réttinn til að vinna. „Við viljum fá atvinnuleyfi með tímabundnu kennitölunni á meðan við bíðum ákvörðunar Útlendingastofnunar. Við viljum vinna!“
- Jafnan aðgang að heilsugæslu. „Þörfum hvers og eins fyrir læknisþjónustu ber að mæta, hvort sem hún er líkamleg eða sálræn. Sem stendur meina íslensk innflytjendayfirvöld mörgum flóttamönnum að njóta réttar síns til viðeigandi heilbrigðisþjónustu.“
- Að hinum einangruðu flóttamannabúðum í Ásbrú, Keflavík, verði lokað. „Það er andlega eyðileggjandi að vera haldið í einangrun á Ásbrú. Á síðastliðinni viku hafa tveir gert tilraun til sjálfsvígs á Ásbrú.“
Starfsemin í Bæjarhrauni
Aðalskrifstofa Útlendingastofnunar er í Kópavogi, en að Bæjarhrauni fer fram sú starfsemi stofnunarinnar sem snýr beint að brottvísunum. Í sama húsnæði eru höfuðstöðvar stoðdeildar Ríkislögreglustjóra, tiltölulega nýstofnaðrar deildar sem sér aðeins um að framfylgja ákvörðunum Útlendingastofnunar um brottvísanir.
„Komið á morgun og styðjið okkur!“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar. „Við krefjumst þess að raddir okkar og mannréttindi njóti sömu virðingar og annarra!“