„Elsku frænka“ —opið bréf Jórunnar Eddu um það að mótmæla í flugvél

Elsku frænka,

ég ætlaði nú að vera búin að svara þér fyrr og bið þig afsökunar á hversu seint þetta er sent. Það var búið að vera of mikið að gera hjá mér til þess að ég fyndi gott rými til þessara skrifa, ekki síst vegna þess að ég þurfti að melta þetta og pæla í skeytinu og innihaldi þess til þess að átta mig fyllilega á hvað mér fyndist um það.

Augljóslega bjóst ég aldrei við því að allir yrðu sammála okkur um réttmæti þeirra aðferða sem við beittum þarna. En síðan höfum við hlotið miklu meiri stuðning og fundið fyrir víðari samstöðu í þessu máli en ég hefði nokkurn tímann þorað að vona, og kannski er það aðallega þess vegna sem þessi skilaboð komu mér örlítið á óvart og ég þurfti aðeins að liggja á svarinu.

Ég veit að við erum í stórum atriðum sammála hvað varðar stefnu í málaflokknum, þó að það sama eigi ekki við um aðferðafræðina. Ég veit að manngæska og víðsýni eru eiginleikar sem gæða þig og ég veit að þú ert vinum þínum og vandamönnum góð. Ég veit að ég var lánsöm að njóta þess frá bernsku. Það er enda af eintómri virðingu og væntumþykju sem ég skrifa þessi orð.

Eze hafði búið á Íslandi í fjögur ár þegar honum átti að vísa úr landi. Beiðni hans um stöðu flóttamanns eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafði velkst um í kerfinu allan þann tíma. Allan þann tíma hafði hann lifað í ótta um eigin líf, framtíð sína á Íslandi, og að eiga framtíð yfirhöfuð. Fyrir utan þann höfuðverk, þjáðist hann þar að auki af bókstaflegum höfuðkvölum árum saman vegna þess að meðlimir Boko Haram höfðu hoggið hann í höfuðið og það tók hann áraraðir að fá viðeigandi læknisaðstoð. Þrátt fyrir það tókst honum að búa sér ágætis líf á Íslandi, eignast vini, kærustu, finna sér vinnu og standa sig vel við að byggja sér líf í landi sem hann lifði í sífelldri óvissu um hvort hann fengi að njóta til lengdar; við stöðugan ótta um að án fyrirvara yrði fótunum kippt undan honum og hann sendur fyrirvaralaust úr landi; við sífelld skilaboð um að hér væri hann ekki velkominn.

Við höfðum reynt allar lagalegar leiðir til þess að koma málinu hans í réttan farveg og ekkert hafði gengið í næstum fjögur ár þegar loksins komu góðar fréttir: kærunefnd útlendingamála hafnaði ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda hann úr landi! Það var fagnað og það var grátið: loksins!

Eze gat loksins andað léttar, og við með honum.

Þá kom skellurinn. Þvert á hefðir og lög um stjórnsýslu ákvað Útlendingastofnun að fara gegn niðurstöðu kærunefndar og senda hann samt burt, senda hann til Svíþjóðar þaðan sem vitað var að hann yrði sendur áfram þangað sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram höfðu ofsótt hann og komist nálægt því að drepa hann. Þeim tókst það ætlunarverk gegn bróður hans. Útlendingastofnun gekk hratt og örugglega í verkið og án fyrirvara, án möguleika á því að fá ákvörðunina skoðaða af öðru, æðra stjórnvaldi, án þess að hægt væri að bregðast við í samræmi við það sem lög gera ráð fyrir. Hratt og örugglega var Eze handtekinn og settur í flugvél. Fólk kom saman á mettíma og mótmælti þessu, bæði við Innanríkisráðuneytið og við lögreglustöðina þar sem honum var haldið, á meðan allt var reynt til þess að ná sambandi við þá aðila sem gætu á lagalegum grundvelli stöðvað þessa ólögmætu endursendingu. Allt kom fyrir ekki, enda enginn tími gefinn til þess, enginn fyrirvari.

Þegar reyndar hafa verið allar hugsanlegar leiðir til þess að ná á nokkra þá manneskju sem gæti stöðvað ferlið —sem hafði verið sett af stað gegn lagalegri ákvörðun æðra stjórnvalds— þegar einungis nokkrir klukkutímar eru til stefnu, allar skrifstofur lokaðar og opna ekki fyrr en eftir að loftfar dauðans hefur siglt af stað með félaga manns, hvað gerir maður?

Og þá vaknar spurningin hversu langt má ganga til þess að bjarga lífi? Eða, öðrum orðum, hvar er hægt að réttlæta að stoppa, hætta, setjast niður og horfa á, á meðan maður er drepinn, sendur á vit örlaga sinna? Og þá vinir manns? Hvenær hlýðir maður, sest og segir „ok, farið með hann í dauðann, látið hryðjuverkasamtökin sem drápu bróður hans, hjuggu hann í hausinn, taka hann og fara með hann að vild?“ Hvenær hættir maður að eiga bak bróður síns? Þegar lög byggð á útlendingaandúð segja farðu? Þegar stofnun sett á fót af nasista segja deyðu? Þegar komið er um borð í flugvél, þegar flugfreyja segir sestu?

Nei elsku frænka, það var ekki hægt, það er ekki hægt. Ég gat það ekki, og ég veit það líka í hjarta mínu að það gætir þú aldrei gert. Rétt eins og engin heil manneskja með heitt hjarta gæti staðið á sundlaugarbakka og horft á aðra drukkna þó að sundlaugarvörður segði nei, þá hlýðirðu auðvitað ekki boðum um að setjast, þegar það eina sem lítilfjörlegt vald þitt býður upp á til bjargar lífi og limum samferðamanns þíns er að vera áfram í uppréttri stöðu – þótt það sé um borð í flugvél.

Ég á raunverulega erfitt með að sjá fyrir mér að elsku frænka myndi ekki sjá sér kleift að setjast ekki niður í flugvél og tala við fólkið um borð ef hún hefði ástæðu til þess að trúa því að það gæti skilið á milli lífs og dauða vinar hennar; að standa ekki upp fyrir lífi og limum vinar vegna þess að eini vettvangur mögulegrar lífsbjargar ætti sér stað í flugvél – kyrrstæðri, enn í stæði og hurðin opin; hreyflarnir ekki gangsettir, engin raunveruleg ástæða fyrir neinn um borð að óttast og aldrei möguleiki að nokkur hætta verði neinum búin eða þeim gert nokkurt tjón. Eina ógnin sem steðjaði að nokkrum um borð í þessari vél var að manninum sem stjórnvöld áttu að verja en ákváðu þess í stað að lumbra á og með ofbeldi og nauðung senda til baka í fang hryðjuverkasamtaka.

Ég er sammála því, elsku frænka, að flugvélar eru ekki ákjósanlegur staður fyrir mótmæli. Enda var það ekki gert af neinni léttúð heldur af þungu hjarta sem átti engra kosta völ.

Með kærri kveðju til þín elsku frænka, og þökkum fyrir gæskuna sem þú, með öðrum, gæddir mig,

Þín frænka,

Jórunn Edda.