Samstöðumálið fyrir Héraðsdómi —dagskrá miðvikudagsins herfilega, 6. mars 2019

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Ragnheiði Freyju og Jórunni Eddu

Að morgni miðvikudagsins 6. mars, kl. 9:15, hefst aðalmeðferð málsins gegn Jórunni Eddu og Ragnheiði Freyju í Héraðsdómi Reykjavíkur við Lækjartorg. Réttarhöldin eru opin – það er með öðrum orðum réttur ykkar að vera viðstödd í dómsal, svo lengi sem húsrúm leyfir. Við hvetjum áhugasama morgunhana sérstaklega til að mæta strax við upphaf þinghaldsins, en það verður styrkur í nærveru ykkar og samstöðu á hvaða tíma dagsins sem er, þar til málflutningi lýkur, klukkan 16 samkvæmt áætlun.

Facebook-viðburð þinghaldsins sjálfs má finna hér.

Dagskrá þinghaldsins

Dagskráin hefst með skýrslugjöf Jórunnar Eddu og Ragnheiðar Freyju, sakborninga í málinu. Að framburði þeirra loknum hefjast vitnaleiðslur. Vitnin sem gefa skýrslu eru, samkvæmt heimildum miðilsins, fjórar flugfreyjur, þrír flugmenn og tveir lögreglumenn ríkislögreglustjóra.

Hádegishlé verður frá klukkan 12 til 13. Virðist áætlað að tvö vitnanna gefi skýrslu eftir hléið, það síðasta frá klukkan 13:15. Klukkan 13:30 hefst málflutningur, fyrst ákæruvalds, síðan verjenda. Samkvæmt hefð er málflutningurinn síðasti liður á dagskrá og er áætlað að honum, og þar með réttarhöldunum, ljúki klukkan 16. Einhverjar breytingar gætu orðið, málflutningur gæti til dæmis staðið lengur, þó er ólíklegt að slíkar tilfærslur verði verulegar.

Samstöðuviðburður um kvöldið

Þennan sama dag, 6. mars, er ár liðið frá því að fyrstu fréttir bárust um fráfall Hauks Hilmarssonar í Sýrlandi. Haukur Hilmarsson var forsprakki og driffjöður í baráttunni fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi, allt frá því að hún hófst, sumarið 2008. Í slagtogi við stuðningsfólk Ragnheiðar og Jórunnar hafa vinir og vandamenn Hauks boðað til samstöðufundar á Lækjartorgi klukkan 20 á miðvikudagskvöld.

Nánari upplýsingar um samstöðuviðburðinn má finna hér.