
Samstöðuvarningur rauk út í Iðnó á sunnudagskvöld, en þar voru til sölu bæði bolir og barmnælur með hinu alþjóðlega slagorði og baráttumerki „Samstaða er ekki glæpur“. Í stærðunum L og XL seldust bolirnir raunar upp löngu áður en kvöldið var á enda runnið, og fengu færri en vildu.
Þá gáfu listamenn kollektífsins post-dreifing verk til fjáröflunarinnar, sem einnig voru til sölu á tónleikunum. Í stuttu máli seldust þessi verk einnig upp á svipstundu.
Ágóðinn af sölu þessa varnings rann, eins og andvirði seldra miða á tónleikana, í sjóð á vegum félagsins Styr —samstöðusjóður, sem verður nýttur til að standa straum af kostnaði vegna málshöfðunarinnar gegn Ragnheiði og Jórunni.