„Með því að efla samstöðu okkar sýnum við að aðgerðir yfirvalda hafa þveröfug áhrif“

Jórunn Edda, fyrir miðju sviði, og Elínborg, vinstra megin. Iðnó, 3. mars 2019.

Jórunn Edda ávarpaði gesti samstöðutónleikanna í Iðnó á sunnudagskvöld, ásamt Elínborgu Hörpu Önundardóttur. Jórunn hóf mál sitt á að þakka, fyrir sína hönd og Ragnheiðar Freyju, öllum sem komu að tónleikahaldinu og gáfu vinnu sína til að af viðburðinum mætti verða.

Að því sögðu lagði Jórunn áherslu á mikilvægi samstöðu og samstöðuviðburða, að einstaklingar sitji ekki einir uppi með að bregðast við áreiti og ati yfirvalda heldur sé slíku svarað af heilu samfélagi:

„Til að fólk sem grípur til aðgerða, fólk sem stendur upp, viti að búast má við að stærri hópur standi með þeim.“

Jórunn sagði að þannig finni hver og einn:

„frekar til hugrekkis til að standa upp og tala fyrir hönd þeirra sem síður geta staðið sjálfir eða fá ekki að eiga rödd.“

Þá sagði hún:

„Með þessum réttarhöldum og öðrum álíka vilja yfirvöld draga úr okkur kraftinn, draga úr okkur kjarkinn, en með því að efla samstöðu okkar sýnum við að aðgerðir þeirra hafa þveröfug áhrif.“

Hlátur okkar geri mátt þeirra að engu

Elínborg sagði glæpavæðingu samstöðunnar ekki sér-íslenskt fyrirbæri og ekki bara evrópskt heldur ætti hún sér nú stað um allan hinn vestræna heim. Hún sagði að það væru helst Afríkulönd sem stæðu sig betur í móttöku flóttafólks, á meðan Vesturlönd reisi veggi og girði sig af. Þá vísaði hún í bækling sem dreift var á tónleikunum með yfirliti yfir nokkrar hliðstæðar málsóknir gegn aðgerðasinnum í öðrum löndum, en efni hans hefur einnig verið birt hér á vefnum.

Elínborg lagði áherslu á að barátta sem þessi væri ekki aðeins barátta fyrir hönd annarra, í tilfelli samstöðumálsins fyrir hönd Eze Okafor, heldur um leið fyrir hönd okkar sjálfra, það er þeirra sem grípa til mótmæla: í sömu mund og við berjumst fyrir rétti annarra berjumst við fyrir frelsi okkar til tjáningar og tengslamyndunar, réttinum til samstöðu, sagði hún. Með því að tala saman, sýna samstöðu og jafnvel skemmta okkur saman megi gefa yfirvaldinu fingurinn. Hlátur okkar geri mátt þess að engu.

Jórunn og Elínborg fluttu báðar ávörp sín á ensku, blaðlaust að mestu. Efni þeirra er hér endursagt eftir bestu getu. Lokaorð erindanna voru aftur á móti óyggjandi, afgerandi, tvímælalaus. Engum vafa undirorpin og nú greypt í hvert sláttfært hjarta á Iðnó þetta kvöld. Það var Jórunn sem sló botninn í ræðurnar með aflmiklu ákalli hinnar alþjóðlegu No Border-hreyfingar:

No Border, No Nation, Stop Deportations!

Baráttan heldur áfram eftir miðvikudag

Undir lok tónleikanna tók Ragnheiður Freyja til máls. Hún þakkaði öllum fyrir komuna og stuðninginn, sem hún sagði ómetanlegan. Hún reifaði dómsmálið stuttlega og sagði að þó svo að réttarhöldin fari fram á miðvikudaginn næstkomandi haldi baráttan áfram eftir það, „lagalega, viljalega og skemmtanalega“.