Umfjöllun Stundarinnar um mál Jórunnar og Ragnheiðar

Stundin hefur fylgst með máli Okafor Eze, og í kjölfarið máli Ragnheiðar Freyju Kristínardóttur og Jórunnar Eddu Helgadóttur, öðrum fjölmiðlum fremur. Hér verða teknir sama hlekkir á umfjöllun Stundarinnar til þessa.

„Þeir voru að leika sér að því að meiða mig“

Daginn sem Ragnheiður og Jórunn stóðu upp, þann 26. maí 2016, birtist í Stundinni frétt undir fyrirsögninni „Handteknar í flugvél: „Þeir voru
að leika sér að því að meiða mig“
“. Þar er aðgerðin reifuð í stuttu máli, ásamt viðbrögðum yfirvalda á staðnum. Frásögnin hefst hér:

„Ragnheiður Freyja og Jórunn Edda áttu pantað flug til Stokkhólms í morgun en þegar um borð var komið stóðu þær upp og sögðu frá sögu Eze sem sat aftast í flugvélinni ásamt lögreglumönnum sem höfðu umsjón með brottvísun hans úr landi. Þær báðu flugfarþega að sýna samstöðu með því sem þær kölluðu brot á mannréttindum X með því að standa upp en flugstjóri flugvélarinnar neitaði að taka á loft fyrr en allir farþegar höfðu sest niður.“

Mótmæli í Innanríkisráðuneytinu

Breiður hópur fólks mótmælti brottvísun Eze vorið og sumarið 2016. Þann 31. maí, fimm dögum eftir brottvísunina sem Jórunn og Ragnheiður reyndu að stöðva, mætti hópur fólks í Innanríkisráðuneytið og krafðist þess að fá að ræða við Ólöfu Nordal, þáverandi innanríkisráðherra.

Stundin greindi frá mótmælunum í frétt sama dag. Var þar meðal annars vitnað í Hjalta Hrafn Hafþórsson, heimspeking og talsmann No Borders, sem sagði viðstadda vilja fá ráðherrann „til þess að gangast við þeirri ábyrgð sem hennar embætti á að bera og að hún feli sig ekki endalaust á bak við stofnanir sem heyra undir hennar embætti“.

Um sextíu manns mættu til mótmælanna að sögn Stundarinnar og hrópuðu meðal annars slagorðið „Bring back Eze!“. Nokkur hópur hafi haldið mótmælunum áfram með setuverkfalli í anddyri ráðuneytisins fram eftir deginum, allt þar til skrifstofunum var lokað klukkan fjögur, en þá „tóku lögreglumenn í óeirðarbúningum til við að hreinsa anddyri ráðuneytisins með því að draga fólk út með valdi og henda því út“.

Umfjöllun í Al Jazeera

Um mánuði eftir brottvísun Eze og tilraun Jórunnar og Ragnheiðar til að hindra hana, var fjallað um hvort tveggja í fréttum Al Jazeera. Þann 20. júní 2016 birti Stundin frétt um umfjöllun alþjóðlegu fréttastofunnar. Al Jazeera ræddi við Eze sem sagðist meðal annars hafa aðlagast samfélaginu á Íslandi og eignast þar marga vini. „Margir þekkja mig. Þannig þegar lögreglan barði mig og handtók mig urðu viðbrögðin mjög mikil“ er haft eftir honum. Fyrirsögn á endursögn Stundarinnar var: „Al Jazeera fjallar um harkalega brottvísun frá Íslandi“.

Elin Ersson neitar að setjast

Í júlímánuði 2018 framkvæmdi sænsk kona að nafni Elin Ersson hliðstæða aðgerð og þær Jórunn og Ragnheiður, þegar hún neitaði að setjast niður í farþegaflugvél sem til stóð að yrði notuð til nauðungarflutninga á hælisleitanda. Aðgerðin vakti heimsathygli og kallaði fram breiða samstöðu með Ersson.

Stundin fjallaði um aðgerð Ersson þann 25. júlí 2018, og reifaði mál Jórunnar og Ragnheiðar í því samhengi, undir fyrirsögninni: „Kom í veg fyrir brottflutning hælisleitanda: Neitaði að setjast niður í flugvél“.

Ákæra berst —tveimur árum eftir aðgerð

Vel rúmum tveimur árum eftir aðgerðina í flugvélinni berst Ragnheiði og Jórunni ákæra – sama dag, raunar, og Elin Ersson var birt ákæra fyrir hliðstæða aðgerð í Svíþjóð. Þann 30. október 2018 birti Stundin ítarlega umfjöllun og viðtal við Ragnheiði og Jórunni af þessu tilefni, undir fyrirsögninni „Allt að sex ára fangelsi fyrir að standa upp fyrir flóttamann“

Umfjöllunin hefst á tilvitnun í Jórunni sem segir: „Við vorum báðar verulega hræddar um öryggi hans svo við gripum til þessa örþrifaráðs. Við töldum mögulegar tafir á flugi um einhverjar mínútur ekki vera neitt neitt í samanburði við mannslífið sem væri í húfi, nú eða öryggi manneskjunnar – vinar okkar“

Óskýrt hvað hvorri þeirra er gefið að sök

Síðar um haustið, þann 26. nóvember 2018, birti frétt um afstöðu hinna kærðu til ákærunnar, en samkvæmt verjendum þeirra er verknaðarlýsingin í ákærunni „svo óskýr að þeim hafi ekki tekist að ráða hvað vorum skjólstæðingi þeirra sé gefið að sök.“ Fyrirsögn þessarar fréttar var „Ákæran svo óskýr að þeim sé „ógerlegt að taka til varna““

Flugdólgar sleppa en aðgerðasinnum mætt af hörku

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði frávísunarkröfu Jórunnar og Ragnhiðar þann 4. desember 2018, og greindi Stundin frá þeirri framvindu í frétt undir fyrirsögninni „Segja að flugdólgar sleppi við ákærur meðan aðgerðasinnum sé mætt af hörku“. Er þar vísað til þeirrar ábendingar verjenda Jórunnar og Ragnheiðar að „ekki hafi þótt tilefni til ákæru í málum þar sem svokallaðir flugdólgar hafa truflað flug í miðjum háloftum sem hafi haft mun alvarlegri afleiðingar í för með sér en í þessu tilfelli, og velta því upp hvort viðbrögð ákæruvaldsins skýrist mögulega af því að hér hafi verið um pólitíska aðgerð að ræða“.


Show comments

Read the discussion

One reply to “Umfjöllun Stundarinnar um mál Jórunnar og Ragnheiðar”

  1. […] að dusta rykið af tveimur málum úr íslenskri samtímaréttarsögu og skoða í samhengi við málshöfðun ríkisins gegn tveimur konum, Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur, sem á […]

Comments are closed.