Réttarhöld sem refsing

Snorri Páll skrifar:

Til eru í það minnsta tvær leiðir til að túlka eðli refsinga í sakamálum sem höfðuð eru af ríkisvaldinu gegn andófsfólki vegna mótmælaaðgerða og pólitískrar óhlýðni. Annarsvegar má sjá dómskerfið sem lögmætan vettvang til úrlausna félagslegra átaka, þar sem hefðbundnu ferli lýkur með niðurstöðu óhlutdrægra umboðsmanna réttlætisins, einhverstaðar á ásnum frá og með algjörri sýknu til og með þyngstu mögulegu refsingar. Frá slíku sjónarhorni er það fyrst á þessum tímapunkti, með tilkomu dómsúrskurðar, sem refsing kemur til sögunnar í einhverri mynd. Og einungis sé hún verðskulduð.

Hinsvegar má líta á þá lögvörðu ákvörðun ríkisins að sækja umrædda einstaklinga til saka, sem refsingu í sjálfu sér — og hér liggur grundvallarmunurinn — án tillits til inntaks og afleiðinga hins endanlega dóms.

Andspænis þessum ólíku túlkunarmöguleikum er ómaksins vert að dusta rykið af tveimur málum úr íslenskri samtímaréttarsögu og skoða í samhengi við málshöfðun ríkisins gegn tveimur konum, Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur, sem á síðasta ári voru ákærðar fyrir að standa upp og neita að setjast aftur niður um borð í kyrrstæðri flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í maí 2016. Hvöttu þær aðra farþega vélarinnar til að gera hið sama, enda markmiðið að koma í veg fyrir brottvísun nígersks manns sem sótt hafði árangurslaust um hæli á Íslandi vegna ofsókna Boko Haram í upprunalandi hans. Aðalmeðferð málsins fer fram þann 6. mars nk. í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þú skalt ekki hlaupa

Fyrst ber að nefna mál ríkisins gegn Hauki Hilmarssyni og Jason Thomas Slade, sem í júlí 2008 fundu sér leið inn á flugvélastæði við Leifsstöð og tóku þaðan á sprett að vél Icelandair sem þá var nýlögð af stað í átt að flugbrautinni. Í flugvélinni, sem var á leið til Ítalíu, sat Paul nokkur Ramses, hælisleitandi frá Kenýa, á milli tveggja varða laganna sem tryggja áttu að brottvísun hans — í kjölfar synjunar Útlendingastofnunar á efnislegri meðferð hælisumsóknar hans — færi hljóðalaust fram og án vandkvæða. Hlaupurunum tveimur tókst að stöðva vélina og tefja þannig flugtak og brottflutning um stund, allt þar til þeir voru slegnir niður af starfsmönnum vallarins sem keyrt höfðu í óðagoti á eftir þeim. Til að gera langa sögu stutta hlóð uppátækið allverulega utan á sig, og eftir hrinu mótmæla og fjölmiðlaumfjöllunar í kjölfarið var Paul gert kleift að sameinast konu sinni og barni á Íslandi þar sem honum var á endanum veitt hæli.

Í viðtali fimm árum síðar talaði hann tæpitungulaust: „Flugvallarhlaupararnir björguðu lífi mínu.“

Spretthlaupið örlagaríka launaði ríkisvaldið Hauki og Jason með ákærum, og snemma árs 2010 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur þá til fangelsisvistar: annan í 60 daga, hinn í 45 daga á skilorði. Ári síðar ómerkti Hæstiréttur dóminn og vísaði málinu aftur í hérað sökum löglausra breytinga saksóknarans á lagaheimfærslu brotanna undir lok aðalmeðferðarinnar. Við þriðju meðferð málsins, sem fram fór haustið 2011, freistuðu sakborningarnir þess eins og áður að beita umfram allt siðferðislegum vörnum. Í stað þess að falla í smásmugulegar gildrur ákæruvaldsins — eintómt karp um tæknileg atriði og taktískan undirbúning hlaupsins — gerðu þeir pólitískt samhengi og siðferðislega merkingu „glæpsins“ að miðpunkti málsvarnar sinnar. Þeir vísuðu til neyðar hins varnarlausa hælisleitanda, bentu á borgaralegan rétt sinn og skyldu til að rétta honum hjálparhönd, og undirstrikuðu áðurnefnd ruðningsáhrif verknaðarins.

En saksóknarinn og dómarinn, sem hvorugur treysti sér út í þá sálma, einblíndu þess í stað á reglugerðir, girðingar, aðvörunarskilti og getu manna til að valda skemmdum á flugvélahreyflum með því að sogast inn í þá. Að lokum voru tvímenningarnir sakfelldir fyrir brot á lögum um flugvernd og loftferðir, og dæmdir til að greiða hvor um sig 125.000 króna sekt og í sameiningu fjórðung 500.000 króna málsvarnarlauna verjanda síns — samanlagt töluvert lægri upphæð en kostnaður ríkisins varð við þennan þriggja þátta réttarfarslega farsa.

Þú skalt ekki standa

Síðara málið er raunar tvö mál, bæði höfðuð gegn sama manninum, sjúkraliðanum Lárusi Páli Birgissyni, sem á árunum 2010-11 var tvívegis sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn lögreglulögum. Atvikalýsingin var í bæði skiptin eins: Lárus stóð á stéttinni fyrir utan Sendiráð Bandaríkjanna á Laufásvegi, vopnaður spjaldi með áletruðum slagorðum gegn stríðsrekstri. Í kjölfar kvörtunar sendiráðsins mættu tveir galvaskir lögreglumenn askvaðandi og skipuðu honum að hypja sig. Lárus stóð sem fastast og vitnaði, óhlýðni sinni til stuðnings, í stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla, auk þess sem hann hafði í fórum sínum gögn sem sýndu svart á hvítu að téð gangstétt var alls ekki í umdæmi sendiráðsins, heldur skilgreind sem almannarými í Reykjavíkurborg. Í kjölfarið var hann handtekinn, kærður og ákærður, og að lokum fundinn sekur um að hafa „neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu um að færa sig yfir á gangstéttina hinum megin götunnar,“ eins og segir í öðrum dómsúrskurðinum.

Í fyrra skiptið var Lárusi ekki gerð nein sérstök refsing, sem takmarkaði rétt hans til áfrýjunar, en gert að greiða verjanda sínum 200.000 króna málsvarnarlaun. Í síðara skiptið kaus hann að verja sig sjálfur og var refsingin þá „hæfilega ákveðin 50.000 króna sekt.“

Í ljósi þess hversu lítilfjörlegir dómarnir urðu er eðlilegt að spyrja hvað gróf undan rétti Lárusar til að koma afstöðu sinni á framfæri í almannarými. Hér svarar Arngrímur Ísberg, dómari í síðara málinu: „Alkunna er að sendiráð víða um heim hafa á undanförnum árum og áratugum verið skotmörk misyndismanna og er því ekki óeðlilegt að starfsmenn þeirra séu á varðbergi gagnvart umferð í allra næsta nágrenni.“ Ekki orð um það meir. Réttlætingin hefst og endar í einni og sömu setningu með ódýrri vísan til samhengislauss og þokukennds orðasambands: einhvers sem „alkunna“ er.

Í úrskurði sínum minntist Jón Finnbjörnsson, sem dæmdi í fyrra málinu, á vitnisburð annars lögreglumannanna sem komu á vettvang — hann kvað „enga ógn hafa stafað af ákærða“ — en sá enga þversögn í því að ítreka umsvifalaust þá skyldu íslenskra stjórnvalda „að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda sendiráð fyrir árásum og koma í veg fyrir röskun á friði eða skerðingu á virðingu þess.“ Líkt og dómarinn benti sjálfur á töldu lagana verðir „ekki sérstakt tilefni til aðgerða,“ en þar sem starfsmenn sendiráðsins óskuðu eftir aðstoð lögreglu — og „[e]ftir atvikum verður að telja þessa beiðni hóflega,“ að mati sama dómara — var sjálfsagt að kenna „misyndismanninum“ lexíu.

Þér skal refsað

Fljótt á litið virðast dómarnir, út af fyrir sig, ekkert sérlega veigamiklir ríkisvaldi í varnarham. (Raunar þykir síðari sakfelling Lárusar svo ómerkileg að úrskurðurinn er óaðgengilegur í dómasafni ríkisins á vefnum, en hvort það eitt útskýri þá fátæklegu umfjöllun sem málið hlaut á sínum tíma verður hér að fá að liggja á milli hluta.) Og þó sakborningarnir þrír hefðu vafalaust allir kosið sýknu, frekar en dóma sem í fyrstu virðast hvorki fugl né fiskur, eru hinar tiltölulega lágu fjársektir að því er virðist skömminni skárri en líkamleg frelsissvipting í fangaklefa.

En þá vaknar spurningin: hvers vegna var eiginlega af stað farið? Staðreyndin er vitaskuld sú að bæði málin eru tærar birtingarmyndir þess sem minnst var á hér í upphafi: þeirrar túlkunar að refsingin felist fyrst og fremst í ákærunni, frekar en endilega í dómsúrskurðinum. Ekki aðeins kosta réttarhöldin sakborningana fjárútlát, verðmætan tíma og illendurnýjanlega orku, heldur hafa þau önnur og verri, margfalt dýpri og víðtækari samfélagsleg áhrif.

Í fyrsta lagi gefa þau lögreglunni í auknum mæli grænt ljós á fullkomlega tilhæfulaus og ólögmæt valdboð, sem og vaxandi svigrúm til að beita þá einstaklinga ofbeldi sem óhlýðnast skipunum í nafni réttar síns. Í öðru lagi festa þau enn frekar í sessi harðskeytt viðbrögð við hverskyns andófi og senda þau skilaboð langt út fyrir skjalasöfn dómstólanna að í því felist pólitískur ávinningur að draga andófsfólk á asnaeyrunum í gegnum löng, þreytandi og kostnaðarsöm réttarhöld — árum saman, eins í tilfelli Hauks og Jasons, eða endurtekið vegna sama löglega verknaðarins, líkt og í máli Lárusar — jafnvel þó ógnin af hinum ákærða sé sögð engin, jafnvel þó „glæpurinn“ sé liður í mannsbjörg, og meira að segja þó skattpeningaskjóðan, hið heilaga gral, komi fyrir vikið út í mínus. Þannig er lagður grunnur að stöðugri, yfirvofandi ógn um handtökur, réttarhöld, sakfellingar, sektardóma og fangelsun, sem auðveldlega dregur úr andófsþreki og fælir fólk frá því að spyrna fótum við kúgun.

Slík ógn er eitt form þöggunar. Og þöggun er ein tegund kúgunar.

Því mitt er ríkið, réttlætið og tungan

Hvað fyrri túlkunarmöguleikann varðar má auðvitað velta því upp hvort sakamál á borð við ofangreind geti í einhverjum tilfellum falið í sér úrlausn flókinna félagslegra átaka. Til þess þyrfti málsmeðferðin þó augljóslega að vera frjáls undan froðukenndum uppspuna á borð við yfirlýsingar um að eitthvað sé „alkunna,“ og laus við fjarstæðukennd orsakasamhengi sem geta af sér óra í líkingu við þá að til að „vernda sendiráð fyrir árásum og koma í veg fyrir röskun á friði“ sé mikilvægt að frelsissvipta mann sem „engin ógn“ stafar af. Einnig þyrfti réttarkerfið að geta gengist heildrænt við samhengi „glæpsins“ og fengist heiðarlega við togstreitu annarsvegar banalíteta á borð við girðingar og aðvörunarskilti, sem og skáldlegrar kröfu lögreglunnar um skilyrðislausa hlýðni, og hinsvegar pólitísks og siðferðislegs réttar einstaklinga til að skipta sér — með beinum hætti og fyrirvaralaust — af veruleikanum sem það tilheyrir og blasir við þeim.

En eins og Haukur Hilmarsson skýrði í ræðu sinni við lok réttarhaldanna yfir honum og Jason — ræðu sem skipar einstæðan sess í brotakenndri sögu íslenskra andófsbókmennta — er sá fylgifiskur þess að vera teymdur um réttarkerfið, sem umfram aðra niðurlægir sakborninginn, það hlutskipti að þurfa sífellt að eiga í samtali sem byggir alfarið á forsendum ríkisvaldsins. Engu skiptir hversu fús hinn saksótti reynist til að ræða gjörðir sínar og takast á um réttmæti þeirra við ákæru- og dómsvaldið: í eyrum réttlætisgyðjunnar er andóf útlenska.

Einhverjir vilja eflaust meina að vogin sé gölluð og skálarnar götóttar. Reynsla þeirra sem vermt hafa sakamannabekkinn bendir þó frekar til þess að þessi tyftunaraðferð — réttarhöld sem refsing — sé einmitt aðferð ríkisvaldsins til að afgreiða félagsleg átök og troða niður andóf.

Til stóð að grein þessi birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út þann 22. febrúar sl. Af einhverjum ástæðum birtist röng útgáfa greinarinnar í blaðinu og birtist hún því — rétt og í heild sinni — hér.