Ísland er ekki eina ríkið sem kært hefur aðgerðasinna með ákvæðum úr öllu samræmi við raunveruleg „brot“ þeirra. Síðasta áratug hafa Evrópuríkin beitt ákæruvaldi til að glæpavæða samstöðu með fólki á flótta, hvort sem um er að ræða pólitíska aðgerðasinna, almenna borgara eða björgunarsveitir óháðra samtaka.
Aðilar sem sýnt hafa farandfólki samstöðu, svo sem með því að útvega mat, drykk, fararkosti og húsaskjól, hafa verið ákærð fyrir smygl, mansal og hryðjuverk. Þrátt fyrir þetta hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins neitað að rannsaka hvort lög um ofantalda hluti hafi verið misnotuð af aðildarríkjum. Á meðan halda ofsóknir gegn flóttafólki og þeim sem styðja þau áfram. Nýjasta dæmið hérlendis er ákæra sem Ragnheiður Freyja og Jórunn Edda eiga nú yfir höfði sér fyrir að hafa neitað að sitjast niður í flugvél fyrr en maður, sem var verið að vísa nauðugum úr landi í sama flugi, fengi að ganga út úr vélinni. Þær eru meðal annars ákærðar fyrir að hafa raskað öryggi flugvélarinnar og eiga yfir höfði sér allt að 6 ára fangelsi vegna þessa. Flugvélin var enn með opnar dyr við höfn á Leifsstöð.
Þegar lokun landamæra er höfð í forgangi framar björgun mannslífa, fylgir að mannúðarsinnar eru meðhöndlaðir sem glæpamenn. Þegar það að vernda „okkur“ frá „þeim“ verður mikilvægara í augum evrópska ráðherra og landamæralögreglu heldur en líf einstaklinga á flótta, er kominn tími til að nefna slíka löggjöf og aðgerðir sínu rétta nafni: ríkisrasismi.
Evrópuríkin hafa tekið lög byggð á menningarupprunahyggju, kynþáttamisrétti og útilokun fram yfir lög byggð á mannúðarstefnu og um leið styrkt og réttlætt hatursfulla gjörninga og orðræðu öfga þjóðernissinna sem nú skjóta upp kollinum víða í heiminum.
Í hvert sinn sem við brjótum slík lög, stöndum við upp fyrir annars konar heimi: heimi þar sem við erum öll jöfn óháð því hvar á hnettinum við fæddumst. Það er það sem Jórunn og Ragnheiður stóðu upp fyrir, ásamt fjölda annarra í Evrópu.
Glæpavæðing samstöðu, dæmi úr Evrópu
Ísland 2008
Haukur Hilmarsson og Jason Thomas Slade hlupu inn á flugbraut í Keflavík til þess að stöðva brottvísun pólitíska flóttamannsins Paul Ramses. Þeir voru ákærðir fyrr húsbrot og almannahættubrot þar sem þeir voru sagðir hafa raskað öryggi loftfara.
Danmörk 2015
Hjónin Lisbeth Zornig Andersen og Mikael Lindholm buðu flóttafjölskyldu á leið til Svíþjóðar far á lestarstöð, eftir að þau höfðu boðið þeim upp á kaffi og kanilsnúða heima hjá sér. Hjónin fengu 45.000 dkk sekt (825.000 isk) eða 40 daga í fangelsi á grundvelli þess að þau hefðu smyglað fjölskyldunni yfir landamærin.
Bretland 2017
Stansted 15-hópurinn klippti á flugvallagirðinguna á Heathrow og læstu sig við flugvél í þeim tilgangi að stöðva fjöldabrottvísun 60 manns. Aktívistarnir voru ákærðir í krafti hryðjuverkalaga, þar sem þau voru sögð hafa lagt öryggi flugvallarins í hættu, en hæsta refsing við því broti er lífstíðardómur.
Frakkland 2017–2018
Sjö einstaklingar fylgdu 20 manns á flótta yfir landamærasvæði Frakklands og Ítalíu í Ölpunum, þar sem öfga-hægrisinnar stóðu vörð um landamærin til þess að hindra leið flóttafólks. Sjömenningarnir voru ákærð ekki einungis fyrir „aðstoð við ólögmæta för“ yfir landamærin inn í Frakkland, heldur fyrir að gera það sem „skipulagt gengi“.
Svíþjóð 2018
Elin Ersson, 21 árs aktívisti, neitaði að setjast niður í flugvél þar sem verið var að brottvísa manni til Afganistan. Þónokkrir farþegar um borð í vélinni tóku undir mótmæli hennar og stóðu einnig upp. Á endanum var maðurinn leiddur út úr flugvélinni. Elin var seinna ákærð fyrir að óhlýðnast fyrirmælum flughafnar og gæti nú verið dæmd til að borga háa sekt og afplána allt að 6 mánaða fangelsisvist.
Grikkland 2018
Sean Binder og Sara Mardini ferðuðust til Grikklands á vegum samtakanna Emergency Response Centre International (ERCI) árið 2015 til að bjarga fólki frá drukknun í Miðjarðarhafinu. Þau sátu í varðhaldi sökuð um njósnir, að smygla fólki yfir landamæri og aðild að glæpasamtökum. Sara sem er sýrlönsk flóttakona með hæli í Þýskalandi og einungis 23 ára gömul, var látin laus úr 107 daga gæsluvarðhaldi eftir að hafa borgað 5000 evrur (685.000 isk). Í desember 2018 var birt stefna og eiga Sean og Sara nú yfir sér 25 ár í fangelsi verði þau sakfelld.
Read the discussion
One reply to “Evrópuríki glæpavæða samstöðu með fólki á flótta”
[…] Elínborg sagði glæpavæðingu samstöðunnar ekki sér-íslenskt fyrirbæri og ekki bara evrópskt heldur ætti hún sér nú stað um allan hinn vestræna heim. Hún sagði að það væru helst Afríkulönd sem stæðu sig betur í móttöku flóttafólks, á meðan Vesturlönd reisi veggi og girði sig af. Þá vísaði hún í bækling sem dreift var á tónleikunum með yfirliti yfir nokkrar hliðstæðar málsóknir gegn aðgerðasinnum í öðrum löndum, en efni hans hefur einnig verið birt hér á vefnum. […]
Comments are closed.