Eva Hauks hvetur þá sem vilja minnast Hauks Hilmarssonar til að mæta í Héraðsdóm 6. mars

Haukur Hilmarsson

Eva Hauksdóttir birti í dag, sunnudag, pistil á vef sínum, norn.is, þar sem hún reifar sögu baráttunnar fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi, frá því að Jason Slade og Haukur Hilmarsson hlupu inn á flugbraut 3. júlí 2008, og freistuðu þess að stöðva ólögmæta brottsendingu Pauls Ramses. „Færri vita,“ skrifar Eva, „að þrátt fyrir að ríkið hafi með því að taka við Ramses viðurkennt mistök sín voru Jason og Haukur dregnir fyrir dóm og sakfelldir á grundvelli ákæruliðar sem ekki var getið í ákæru.“

Þá skrifar Eva:

„Samúð og hjálpfýsi eru sammannlegir eiginleikar. En það er sjaldgæft að fólk sé tilbúið til þess að taka áhættu til að hjálpa öðrum. Við getum öll lent í þeirri aðstöðu að þurfa á fólki eins og Jórunni og Freyju að halda. Ég verð ekki á landinu þann 6. mars en ætla að minnast Hauks með því að vekja athygli á máli Jórunnar og Freyju daglega fram að því. Þið sem verðið í aksturfjarlægð og viljið minnast Hauks á þessum táknræna degi gætuð ekki fundið betri leið til þess en þá að mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur til að sýna Freyju og Jórunni stuðning. Ekki bara þeim heldur líka Hauki og Jason, Elin Eirson og öllum öðrum sem sýna það hugrekki að hætta frelsi sínu til þess verja mannrétti annarra. Það eru nefnilega sjálfsögðu mannréttindi að þurfa ekki stöðugt að óttast um líf sitt, frelsi, öryggi og mannlega reisn.“

Pistilinn í heild má lesa hér.