„Flugvallarhlaupararnir björguðu lífi mínu,“ sagði Paul Ramses Odour, frá Kenýa, um aktívistana Hauk Hilmarsson og Jason Thomas Slade í viðtali í DV árið 2013. Fimm árum áður, í júlí 2008, höfðu þeir Haukur og Jason fundið sér leið inn á flugvallarsvæðið við Leifsstöð og hlaupið í veg fyrir flugvél Icelandair sem þá var nýlögð af stað í átt að flugbrautinni. Um borð í vélinni sat Paul, sem sótt hafði um hæli á Íslandi vegna ofsókna í heimalandi sínu, en átti nú að vísa úr landi með valdi og senda varnarlausan til Ítalíu, sökum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að taka mál hans ekki fyrir efnislega. Eftir á Íslandi varð kona hans, Rosemary Atieno, ásamt syni þeirra, Fidel Smára, sem þá var einungis 21 dags gamall.
Ekki tókst að koma í veg fyrir brottvísunina, en með því að stöðva för flugvélarinnar í stutta stund beindu Haukur, Jason og samverkamenn þeirra athygli fjölmiðla og almennings að málinu.
Samstundis var sett af stað undirskriftarsöfnun Paul til stuðnings og daginn eftir aðgerðina fóru fram fjölmenn mótmæli við dómsmálaráðuneytið, skipulögð af félögum flugvallarhlauparanna, þar sem þess var krafist að ákvörðun yfirvalda yrði snúið, Paul sóttur til Ítalíu og honum leyft að búa ásamt fjölskyldu sinni á Íslandi. Birgitta Jónsdóttir og Hörður Torfason tóku því næst við keflinu og stóðu að daglegum mótmælum við ráðuneytið, og í kjölfarið tóku nokkrir stjórnmálamenn málið upp og þrýstu á Björn Bjarnason, sem þá var dómsmálaráðherra, um að trygga Paul réttláta málsmeðferð. Þeirra á meðal voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, sem setti Birni stólinn fyrir dyrnar, og Björk Vilhelmsdóttir, þá borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem sagði að stuðningur hennar við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks væri að veði.
Samanlagður varð þrýstingurinn til þess að Paul var í ágúst gert kleift að snúa aftur til Íslands. Tveimur árum síðar var honum og fjölskyldu hans veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Í ofangreindu viðtali rifja þau Paul og Rosemary upp atburðina og ræða af miklum hlýhug um þá fjölmörgu einstaklinga sem létu sig mál hans varða, ekki síst þá Hauk og Jason. Bendir Paul á að aðgerð þeirra hafi ýtt úr vör þeirri gríðarlegu vakningu sem varð í kringum málið og segir merkilegt til þess að hugsa að þeir hafi ekkert þekkt hann áður, heldur aðeins fylgt réttlætiskennd sinni og hugsjónum:
„Það var alveg hreint magnað hvað þessir strákar gerðu og þessi aðgerð þeirra snerti mig í hjartastað. Þeir tóku frumkvæði að því að klifra yfir girðinguna og trufla flugumferð til þess að vekja athygli á málinu. Þeir voru að berjast fyrir réttlæti og mér fannst þeir vera með ljónshjörtu, vegna þess að á þessum tíma virtist enginn nenna að hlusta. Þannig að ég hef alltaf verið þeim mjög þakklátur fyrir að hafa staðið fyrir það sem þeir töldu rétt. Flugvallarhlaupararnir björguðu lífi mínu.“
Ríkissaksóknari ákærði Hauk og Jason fyrir aðgerðina, og í ársbyrjun 2010 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur þá til fangelsisvistar: annan í 60 daga, hinn í 45 daga á skilorði. Ári síðar ómerkti Hæstiréttur dóminn og vísaði málinu aftur í hérað, þar sem flugvallarhlaupararnir voru fundnir sekir um brot á lögum um flugvernd og loftferðir og dæmdir til að greiða fjársektir. Fyrir dómi benti verjandi þeirra meðal annars á þau umfangsmiklu áhrif sem aðgerðin hafði, annarsvegar á ákvarðanir stjórnvalda og hinsvegar á líf Pauls og fjölskyldu hans. Í viðtalinu segist Paul hafa viljað bera vitni og „útskýra hvers vegna þessi aðgerð þeirra hafi verið svo mikilvæg,“ en af einhverjum sökum ekki fengið tækifæri til þess.
Hvers vegna síðari refsidómur Héraðsdóms, sem féll haustið 2011, varð svo miklu vægari en sá fyrri er fljótt á litið ráðgáta sem ekki er gerð tilraun til að leysa í dómsúrskurðinum. Sé aftur á móti horft til þess að í millitíðinni hafði íslenska ríkið, hið sama og dæmdi í málinu, veitt Paul dvalarleyfi er kannski ekki ólíklegt að eilítið orsakasamhengi hafi látið á sér kræla í kolli dómarans.
Lesa má viðtalið í heild sinni hér.
Read the discussion
One reply to “Aktívismi og orsakasamhengi”
[…] viðtali fimm árum síðar talaði hann tæpitungulaust: „Flugvallarhlaupararnir björguðu lífi […]
Comments are closed.