Brottvísanaskranið yfirbugar eins árs barn með klókindum

Brottvísanavélin rymur gegnum daga, nætur, lög, reglur og stofnanir og hrindir fólki jafnt og þétt frá landinu. Samkvæmt síðustu tölum framkvæmir stoðdeild Ríkislögreglustjóra að jafnaði 10–12 brottvísanir á viku. Framkvæmd þýðir í þessu samhengi að þvinga fólk um borð í flugvél og burt af landinu, fólk sem myndi annars heldur vera um kyrrt.

Í flestum tilfellum gerist þetta þegjandi og hljóðalaust, í þeim skilningi að almenningur verður lítið var við ferlin. Verkferli og reglugerðir þjóna því markmiði nokkuð vel: brottvísanir eiga sér oftast stað með fyrirvaralausri innrás lögreglu á dvalarstaði þeirra sem brottvísa skal, yfirleitt að næturlagi. Síðustu ár hefur Útlendingastofnun bannað heimsóknir á þá staði. Því banni hefur verið framfylgt með strangri öryggisgæslu, bæði varða og myndavéla. Þannig er tryggt að oftast eru ekki vitni að þessari atburðarás.

Einstaka mál verða þó sýnileg. Það var tilfellið í máli Ernu Reku, stúlkubarns sem nú er 19 mánaða gömul. Hún fæddist á Íslandi, albönskum foreldrum, á meðan þau biðu eftir vinnslu umsóknar um dvalarleyfi í landinu. Útlendingastofnun synjaði að lokum umsókninni, og Kærunefnd útlendingamála staðfesti synjunina í júlí 2018. Barnið 14 mánaða gamalt þegar ákveðið var að brottvísa skyldi fjölskyldunni.

Nú segir í 102. grein útlendinga laga að:

„Útlendingi sem fæddur er hér á landi er óheimilt að vísa frá eða úr landi hafi hann frá fæðingu átt hér óslitið fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá“.

Í fljótu bragði mætti ætla að þessi grein laganna tryggi rétt Ernu Reku, til dæmis, til að dvelja á Íslandi, enda hafði hún hvergi annars staðar búið frá fæðingu. Lokaorð lagagreinarinnar reynast hins vegar lykilatriði í túlkun hennar: „samkvæmt þjóðskrá“.

Að því er virðist til að þóknast brottvísanavélinni heldur Þjóðskrá hliðarskrá sem heitir utangarðsskrá. Við fæðingu var nafn Ernu Reku fært þar inn. Þó að hún hafi aldrei komið til annars lands en Íslands taldist hún þar með ekki hafa „fasta búsetu á landinu samkvæmt Þjóðskrá“.

Fulltrúar Þjóðskrár segjast aðeins hlýða fyrirmælum Útlendingastofnunar í þessum efnum. Lögmaður fjölskyldunnar segir Þjóðskrá ekki geta framselt valdheimildir sínar til annarrar stofnunar með þeim hætti, og brotið þannig réttindi barns eins og þau eru skilgreind í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lögmaðurinn bendir á að hvorki í úrskurði Útlendingastofnunar né Kærunefndar útlendingamála hafi verið vikið einu orði að rétti barnsins sem á í hlut. Í krafti þess kærði fjölskyldan brottvísunina fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Allt stjórnkerfið virðist tilbúið að fallast á hina þrengstu lagatæknilegu glufu til að halda fólki frá landinu þegar svo ber við. Nú að morgni miðvikudagsins 20. febrúar 2019 úrskurðaði Héraðsdómur í málinu: niðurstaða útlendingayfirvalda stendur, barnið telst ekki hafa haft „fasta búsetu á landinu samkvæmt Þjóðskrá“, og yfirvöldum því heimilt að brottvísa því.

Með nokkuð harðsvíruðum lagatæknilegum klókindum virðist brottvísanavélin þannig hafa haft betur í viðureign sinni við hvítvoðung. Heyrst hefur að skrapatólið fagni niðurstöðunni og skáli í ryði.