Mannréttindadómstóll tekur setuverkfallsmálið til skoðunar

Þegar íslenskum dómstólum finnst allt í góðu að lögreglan brjóti ítrekað á réttinum til að mótmæla sem og takmarki tjáningarfrelsi mótmælenda með óhóflegri og handahófskenndri beitingu 19. greinar lögreglulaga, þá er lítið annað að gera en að leita á önnur mið.

Um miðjan desember hafði Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) samband við Helgu Baldvins- Bjargardóttur verjanda sjömenninganna varðandi setuverkfallið í dómsálaráðuneytinu. Í bréfinu var útskýrt að nú hæfist fyrsti hluti málaferlisins, en það væri „sáttastigið“ þar sem aðilum málsins gefst tímafrestur til að komast að sáttum í málinu. Verði ekki komist að sáttum í málinu fyrir ákveðin tímamörk hefst annað stig málaferlanna sem kalla mætti „deilustigið“. Þegar deilustigið hefst fá yfirvöld 12 vikna tímaramma til að skila inn öllum gögnum um málið.

Fyrir utan að tilkynna sjömenningunum um upphaf málaferla þeirra hjá MDE, bað dómstóllinn um um nákvæmari útlistun á ákveðnum lagalegum atriðum varðandi málið og gaf lögmanni sjömenninganna frest þar til 28. febrúar 2022 til að svara því.

Þetta er allt voða þurrt og leiðinlegt, en slíkt er víst oft eðli lagalegra og búrókratískra málaferla enda er tilgangur þeirra ekki síður að vera refsing en leið að einhverskonar réttlæti eða betrumbótum. Kannski má líta á málaferli sem ögra ríkisvaldinu sem langhlaup þar sem skattpeningar og hlýðni eru vatn ríkisleikmanna en samstaða okkar sem sjá í gegnum hræsni ríkisvaldsins er vatn andstæðinganna.