19. mars 2019. Ári fyrir Covid. Fyrir utan skrifstofubyggingu Alþingis stendur hópur fólks með límband fyrir munninum og hendur á lofti til að mótmæla brottvísunum flóttafólks.
Lögreglan mætir og segir fólkinu að færa sig. Talsmaður hópsins heldur fram stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til mótmæla. „Já, þið getið gert það annars staðar,“ svarar stjórnandi lögregluliðsins. Ef hann gaf skýrt til kynna hvar honum væri þóknanlegt að mótmælin færu fram kemur það ekki fram á myndbandsupptökunni. Lögreglan fylgir þessum óljósu fyrirmælum eftir með því að ýta mótmælendum ítrekað með handafli, fjær og fjær húsinu. Handtökur hefjast þó ekki fyrr en talsmaður hópsins segir: „Sumir hérna skilja ekki fyrirmælin, geturðu talað ensku?“ Með það sama er hún handtekin og færð í bíl. Annar mótmælendi færir sig – enn með hendur á lofti – á þann veg að hann verði sýnilegur lögreglumönnunum á meðan á handtökunni stendur. Hann er tekinn fastur og færður upp í bílinn líka.
Sá maður heitir Julius Pollux Rothlaender. Og þann 20. september 2021 var kveðinn upp dómur í málinu sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði gegn honum vegna þessara atvika. Það er tveimur og hálfu ári síðar, eða einu ári og fjórum bylgjum af heimsfaraldri. Það er drjúgur tími til að halda manni uppteknum. Það má gera margt annað við þann tíma en sóa honum í réttarhald um ekki neitt.
„Bakkandi á hægum gönguhraða með báðar hendur á lofti“
– Um ekki neitt – það er að segja: eins og öll hin málin sem stjórnvöld hafa ákveðið að höfða gegn mannréttindabaráttu í landinu snýst þetta um nákvæmlega ekki neitt ef aðeins er horft til atvikanna sem ákæruvaldið færir í orð. En það vita þau jafn vel og aðrir, að tilefni ákærunnar er ekki nokkurra sekúndna dans milli þinghússins og lögreglubílsins. Tilefni og inntak þessara málaferla, það sem þau snúast um, er að brjóta á bak aftur réttindabaráttu fyrir hönd fólks á flótta.
Hvert og eitt þeirra mála sem stjórnvöld hafa ákveðið að höfða gegn mannréttindabaráttu í landinu snýst um það: að kæfa baráttuna sjálfa. Þú veist að stjórnvöld hafa endurtekið brotið lög, rétt og velsæmi við brottvísanir flóttafólks. Þú veist það vegna þess að mótmæli hafa vakið athygli þína og fjölmiðla á því. Ef hver mótmæli eru færð svo langt út á horn, svo langt burt frá valdinu sem þau beinast að, að þau trufla ekki handhafa þess valds, þá munu þau sannarlega ekki trufla þig heldur.
Cooling effect er enska hugtakið yfir árangurinn af svona taktík: kæliáhrif. Hvert ár sem hópi aðgerðasinna er haldið uppteknum við að verjast árásum ríkisvaldsins gegnum dómstóla, það ár er ekki aðeins dregið úr þrótti baráttunnar sjálfrar, heldur er um leið send skýr viðvörun til annarra um hverju þau mega vænta ef þau skyldu voga sér annað eins.
Ef sá látum eins og enginn slíkur ásetningur sé til staðar, ef við tökum málaferlin á orðinu og ímyndum okkur að ekkert búi að baki annað en það sem finna má berum orðum í ákæru og umfjöllun dómstólanna, hvað stæði þá eftir? Samkvæmt dómnum sjálfum er það, í þessu tiltekna máli, eftirfarandi atvik:
„Á upptökunni sést meðal annars til ákærða í tengslum við þessi atvik þar sem hann kemur að téðum inngangi og virðist standa þar eða nálægt þar til honum og fleirum er ýtt til hliðar samhliða fyrirmælum lögreglu. Einnig sést hann síðar í upptöku ganga fyrir lögreglumenn, bakkandi á hægum gönguhraða og andspænis þeim með báðar hendur á lofti þar sem hinir síðarnefndu eru að færa handtekna manneskju úr hópnum í lögreglubifreið.“
Tíu sekúndur á hægum gönguhraða með báðar hendur á lofti.
Tvö og hálft ár gegnum maskínuna.
Hvílíkt glapræði. Hvílík sóun.
Dómarinn fær þetta rugl á borð til sín. Tíu sekúndur á hægum gönguhraða með báðar hendur á lofti, og tvær lagagreinar, sem ákæruvaldið segir brotnar. Sú fyrri er 19. grein lögreglulaga, um að hlýða beri lögreglu sama hvað: „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur“. Í þessu máli bætir dómari reyndar um betur og rennir stoðum undir lagagreinina með skírskotun til núgildandi stjórnarskrár. Síðari greinin sem ákæruvaldið segir Julius hafa brotið er 21. grein sömu laga, sem er svohljóðandi: „Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni lögreglustörfum.“
Eins og svo oft áður í þessum málum er dómurinn, þegar upp er staðið, bland beggja, hvorki né, sakfelling í öðrum liðnum, sýkna í hinum, frestun refsingar haldi sakborningur almennt skilorð. Enda hefur tyftingin þegar átt sér stað, með sóun á tíma hans og athygli, handtöku og vistun í fangageymslu. Það sem er hins vegar forvitnilegt, í þetta sinn, eru sviðslistir dómarans í báðum tilfellum, fyrst svolítið galdrabragð til sakfellingar, síðan annað eins til sýknu.
Að láta mann hverfa og birtast á ný
Til að finna óhlýðni af hálfu hins ákærða í málinu, Juliusar Pollux Rothlaender, leysir dómarinn upp persónu hans og einstaklingsbundna tilvist. Ljóst er, segir hann, „að umræddir mótmælendur komu sameiginlega fram sem hópur fólks og var ákærði þar á meðal. Liggur fyrir að þau tóku sér stöðu fyrir téðum inngangi“. Aðeins einn maður er ákærður í þessu tiltekna dómsmáli. Hér er ekkert um hvað hann gerði. „[Þ]au færðu sig lítils háttar til hliðar á meðan aðrir úr hópnum færðu sig endurtekið aftur að inngangnum“. Ekkert um ákærða hér heldur. „Samhliða var lögregla að gefa fyrirmæli um að hópurinn ætti að færa sig frá inngangnum,“ segir svo, og þá hefst galdurinn, þar sem dómstóllinn lætur ekki aðeins ákærða gufa upp, heldur hverja einustu persónu á svæðinu:
„Var því í raun á þeim tíma ekki verið að hlýða fyrirmælum lögreglu, eins og til var ætlast.“
Í stað germyndarinnar sem alla jafna mætti gera ráð fyrir í atvikalýsingu fyrir rétti – Julius gerði X, eða, í þessu tilfelli, Julius gerði ekki X – hann hlýddi ekki – sitjum við uppi með þessa þolmynd, að á þeim tíma var ekki verið að hlýða fyrirmælum lögreglu. Hver var ekki að hlýða? Hvað var ekki að hlýða? Það veit enginn. Það var bara – í raun – ekki verið að hlýða. En vegna þess að dómarinn var, þegar hér kemur sögu, þegar búinn að leysa persónu Juliusar upp í hið almenna ástand þarna á svæðinu, þá þykir ljóst að hann hljóti um leið að hafa átt hlutdeild í þeirri almennu óhlýðni sem – í raun – var komin upp.
Þó að aðgengi að húsinu hafi ekki verið „alfarið hindrað“, að sögn dómarans, þá varð framganga mótmælenda til að gera fólki „erfitt um vik“ að ganga þar um, auk þess að „valda ótta og óróa annarra borgara sem leið áttu um svæðið“. Af tilkynningu þingvarða til lögreglu megi einnig ráða að „af hálfu þingsins“ hafi „þetta“ verið „talið trufla aðgengi og valda ótta hjá starfsmönnum“. Þannig er ljóst að „allsherjarreglu var í umrætt skipti raskað á svæðinu, eins og atvikum var háttað“. Allt fullt af ógn, vegna þess að svolítill hópur fólks stendur þögull með límband fyrir munni og hendur á lofti. En engin persóna í sjónmáli. Í fyrsta lagi enginn tiltekinn hræddur borgari eða nafngreindur, óttasleginn starfsmaður, nærvera þeirra er öll svo almenns eðlis að þau eru varla neitt nema allsherjarreglan sem einhver raskaði. En í öðru lagi, enn og aftur: enginn Julius.
Það er á þessu stigi sem dómarinn teygir sig alla leið til núgildandi stjórnarskrár, að virðist til að renna almennari stoðum undir þá kröfu lögreglulaga að hlýða skuli fyrirmælum lögreglumanna sama hvað, og tiltekur 60. grein stjórnarskrárinnar. Þar segir dómarinn sett fram það almenna viðmið að „enginn geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hann vefengi heimildir stjórnvalda“. Hvaða vafi sem leiki á um valdsvið embættis yfirleitt, beri þó að hlýða embættismanninum fyrst, efast og spyrja svo.
Að því sögðu vindur dómurinn sér aftur að torginu sjálfu, þar sem Julius er þá skyndilega staddur, eftir allt saman, og hin óhlutbundna óhlýðni sem raskaði allsherjarreglu Austurvallar þennan dag verður að óhlýðni hans. „Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að lögfull sönnun hafi tekist fyrir því að ákærði hafi óhlýðnast fyrirmælum lögreglu,“ segir þar, og skuli því sakfelldur fyrir brot á 19. grein lögreglulaga.
Þannig var galdrabragðið með 19. greinina. Dómarinn lét Julius hverfa, og birtast jafn óvænt á ný.
Að láta kylfu hverfa
Seinni liður dómsins er þó jafnvel forvitnilegri. Í stystu máli gerir dómarinn lögreglustjóra ljóst að seinni ákæruliður málsins sé byggður á glórulausum misskilningi, lögreglustjóri hafi blátt áfram reynst ólæs á 21. grein lögreglulaganna sjálfra enda eigi ákvæðið hvorki við um neitt sem Julius gerði eða hafði í hyggju, né um það sem sem lögreglustjóri ætlaði að saka Julius um og taldi sig saka Julius um – og í ofanálag sé ákvæðið ekki af þeim toga að lögreglustjóraembættið geti yfirleitt beitt því í dómsmáli með þessum hætti. Lesningin er svolítið kostuleg.
„Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni lögreglustörfum“ segir 21. greinin. Lengri er hún ekki. Dómarinn segist telja að þeir fulltrúar lögreglunnar sem undirbjuggu ákæruna hafi tekið fyrirsögn ákvæðisins í misgripum fyrir ákvæðið sjálft. Hann segir:
„Orðalag fyrirsagnar með lagaákvæðinu, bann við að tálma lögreglu í störfum sínum, er rýmra en orðalag sjálfs lagaákvæðisins. Fyrirsögnin er hins vegar ekki hluti lagatextans og hefur því takmarkað gildi fyrir úrlausn málsins.“
Með öðrum orðum: Þið vitið ekkert hvað þið eruð að gera.
En dómarinn lætur það ekki nægja heldur opnast þar nokkuð viðamikill kafli í dómnum, þar sem rakin er upprunasaga ákvæðisins. Hann segir það fyrst hafa birst árið 1933, þá í lengra máli, í því augnamiði að tryggja heimildir til að setja saman varalið lögreglu, svonefndar hvítliðasveitir. Hið upprunalega lagaákvæði var svohljóðandi, segir í dómnum:
„Lögreglumenn ríkisins, hvort sem er í föstu starfi eða kvaddir lögreglunni til aðstoðar, eru sýslunarmenn ríkisins og njóta sömu verndar og aðstöðu og þeir menn sem gegna borgaralegri skyldu. Enginn má á neinn hátt tálma því, að maður gegni varalögreglustörfum.“
Orðalag ákvæðisins hefur síðan tekið breytingum með þróun lögreglulaga, sem dómarinn rekur af vandvirkni, skref fyrir skrf, þar til hann túlkar inntak þess og gildissvið í dag, á grundvelli þeirrar sögu. Ákvðinu er, segir hann:
„ætlað að standa vörð um þá hagsmuni að þeir menn sem gegna lögreglustörfum, eða koma að þeim störfum á einn eða annan hátt, séu ekki á neinn hátt hindraðir í því að taka þau að sér, annast eða sinna þeim. Ákvæðið hverfist því fyrst og fremst um lagalega vernd starfssambandsins og að því sé ekki á neinn hátt raskað. Þó sé ákvæðinu síður ætlað að ná utan um þá háttsemi þegar borgararnir setja sig upp á móti einstökum verkefnum eða skyldustörfum lögreglu“.
Til að bíta höfuðið af skömminni bætir dómari því við samkvæmt dómahefð til þessa myndu mál sem varða 21. greinina „heyra undir valdmörk héraðssaksóknara“, en málið gegn Juliusi hafi „ekki verið sótt og varið á þeim grundvelli“. Það er að segja, að í svona dómsmáli, í þessu ferli, á vegum þessara embætta, hefði ekki verið hægt að beita ákvæðinu, sama hvað.
Þetta er seinna galdrabragð dómarans – hann galdrar þessa tilteknu kylfu, 21. grein lögreglulaga, burt úr höndum þeirra sem töldu sig vera að beita henni. Púff! – farin.
Fyrir utan þá skemmtun að sjá dómara snupra lögregluna fyrir fúsk og vanþekkingu á lögreglulögunum sjálfum, þá eru forvitnilegir yfirtónar í þessari lögskýringu. Það varalið lögreglu sem umræddri lagagrein var upphaflega ætlað að standa vörð um, hvítliðarnir eins og þeir voru oftast nefndir, það var stofnað í því augnamiði, fyrst og fremst, að styðja lögreglu við að halda aftur af vinstrihreyfingum síns tíma og baráttu þeirra. Það hlutverk þeirra birtist einna skýrast sextán árum eftir að lagaákvæðið kom fyrst til sögunnar, þegar mikill fjöldi fólks kom saman á Austurvelli til að mótmæla því að Ísland gerðist stofnaðili að kjarnorku- og hernaðarbandalaginu NATO, en fjölmennt lið lögreglumanna og hvítliða þusti fram á völlinn með kylfur, síðan táragas, til að lemstra mótmælendur og leysa samkomuna upp.
Hvað sem því líður var Juliusi gert að greiða helming alls sakakostnaðar, samtals 275.000 krónur auk þess sem ákvörðun refsingar hans var frestað skilorðsbundið í eitt ár. Því vissulega væri ekki hægt að réttlæta réttarhöld um ekkert sem myndu enda með engu.
Hjá Juliusi tekur nú við að áfrýja til Landsréttar. Við minnum á samstöðusjóðinn Styr þar sem safnað er fyrir málskostnaði og -rekstri.
Kennitala: 510219-1550
Reikningsnúmer: 0133-26-020574