Þann 30. ágúst síðastliðinn fóru fram réttarhöld í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Juliusi Pollux Rothlaender, einn af þeim 7 sem handtekin voru í mótmælum með fólki á flótta árið 2019 og kærð fyrir bort á 19. grein lögreglulaga. Julius var síðastur að fara fyrir dóm fyrir þátttöku sína í mótmælagjörningi fyrir utan Alþingi þann 19. mars 2019. Þar með lýkur ferli 19. greinar-málanna í Héraðsdómi, ekki nema 2 árum og 5 mánuðum frá því að mótmælin áttu sér stað.
Ákæran á hendur Juliusi var í tveimur liðum. Annars vegar fyrir meint bort á 19. grein og hins vegar fyrir að hafa átt að tálma störf lögreglu með því að gera meinta tilraun til þess að koma í veg fyrir handtöku Elínborgar, sem einnig var handtekin við sömu mótmæli þann 19. mars. Líkt og af mörgu sem átti sér stað í mótmælunum 2019 eru til mjög góðar upptökur af öllu atvikinu, en þar má sjá og heyra hvernig lögreglan grípur nær umsvifalaust til líkamlegs ofbeldis og almenns ruddaskaps eins og þeim einum er lagið.
Dómsmálið hófst á því að dómarinn, saksóknari og verjandi spurðu Julius um atvikið. Julius endaði vitnisburð sinn á eftirfarandi orðum :
„Ég var handtekinn þegar ég tók þátt í friðsamlegum mótmælum. Það voru mótmæli sem snúast um mannúð og samstöðu, að hlusta á fólk og sögur þeirra.
Svarið frá yfirvöldum og stjórnvöldum var hins vegar mjög skýrt: mótmælendur voru handteknir og – það sem mér finnst erfiðast í öllu þessu – þeir flóttamenn sem byrjuðu og tóku þátt í þessum mótmælum, þeim var öllum brottvísað, þau eru ekki lengur hér á Íslandi.
Ég var farinn að spyrja mig hvort ég bý í samfélagi sem horfir á og viðheldur rasisma? Samfélagi sem þegir og neitar að hjálpa fólki sem biður um hjálp?
Ég er sjálfur útlendingur, en ég er svo heppinn að ég fékk kennitölu strax þegar ég kom hingað frá Þýskalandi fyrir sex árum. Ég má búa hér, ég má læra tungumálið ykkar, ég má vinna og borga skatt. Ég má líka vera handtekinn og ákærður, en sem útlendingur má ég hins vegar ekki kjósa, sem útlendingur má ég aldrei taka þátt í alþingiskosningum. Það að mótmæla á friðsamlegan hátt er ein leið fyrir mig til að reyna að taka þátt í samfélagi og lýðræði.
Saga landsins sem ég ólst upp í kenndi mér mikilvægi þess að spyrja spurninga, að treysta og hlusta á manneskjur, mannúð og samkennd, að vera gagnrýninn á fyrirmæli, lög og valdbeitingu sem vanvirða þessi gildi.
Þið getið handtekið og kært mig á hverjum degi, en þið getið líka spurt ykkur hvernig samfélagi þið viljið búa í.
Þegar næsta kynslóð spyr okkur hvað við gerðum til að gera þetta samfélag að fallegri og mannúðlegri stað – hvert verður svarið?“
Á eftir Juliusi komu í dómsal Arnar Rúnar Marteinsson, stjórnandi aðgerða lögreglunnar, og annar lögreglumaður sem var á vettvangi en sá mundi ansi lítið af atburðum. Aðspurður hvort að það hefði verið skýrt af fyrirmælum lögreglunnar hvert nákvæmlega mótmælendur ættu að færa sig svaraði sá síðarnefndi af þeir hefðu bara átt að færa sig frá hurðinni. Það er áhugavert í ljósi þess að Julius stóð ekki á einum einasta tímapunkti fyrir aðaldyrum Alþingis, sem er einmitt hurðinn sem lögreglumaðurinn vísar til. Þegar verjandi spurði hvort hægt hefði verið að grípa til annarra aðgerða eins og til að mynda að girða svæðið af svaraði hann að það hefði kannski verið hægt.
Arnar Rúnar var álíka æstur og stuttur í spuna eins og í hinum 5 dómsmálunum. Þegar verjandi hjó eftir því hvert mótmælendur hefðu átt að færa sig samkvæmt skipunum lögreglu, hélt Arnar Rúnar því fram að það hefði verið að einhverju horni við gangstétt. Það sést skýrt á myndbandinu að slík fyrirmæli voru aldrei gefin, heldur öskrar hann ítrekað á fólk að færa sig frá aðaldyrum Alþingis um leið og hann og félagar hans hrinda fólki til hliðar, meðal annars Juliusi sem stóð vinstramegin við aðalinnganginn. Líkt og í dómsmálaráðuneytinu mátti ráða af málflutningi Arnars Rúnars að það hefði alltaf staðið til að handtaka fólk, enda sagðist hann „hafa beðið með handtökur þangað til bíllinn kom.“ Arnar tilkynnti dómnum það jafnframt að Julius „hefði verið löngu búinn með alla sénsa þegar hann var handtekinn“, sem mætti teljast furðulegt þar sem Julius hafði einungis staðið fyrir framan dyrnar í um 1 mínútu og 45 sekúndur þegar lögreglan hrinti honum, fyrst í bakið og svo á bringu. Hann stóð svo kyrr á þeim stað sem lögreglan hafði hrint honum á. Til að toppa sannfæringarmátt vitnisburðarins kvaðst hann í lokin „ekki sérstaklega muna eftir þessum aðila“, sem hann mundi samt þó svo greinilega að hefði verið löngu búinn með alla sénsa!
Julius stóð semsagt kyrr á þeim stað sem lögreglan hrinti honum á, sem var ekki fyrir framan aðalinngang Alþingis, og ekki var með nokkru móti hægt að skilja annað en að það ætti að duga. Þegar að Elínborg var svo handtekin gengur Julius með hendur upp í loft og opna lófa við hlið Elínborgar og lögreglumannsins sem handtekur hana, og bakkar einnig á undan þeim. Á milli þeirra er ávallt a.m.k. einn metri. Það er með öllu ótrúverðugt að halda því fram að hann hafi með þessu móti verið að reyna að koma í veg fyrir handtöku Elínborgar, enda væru aðrar leiðir árangursríkari við slíkar tilraunir, líkt og verjandinn bendir réttilega á.
Lína Ágústsdóttir saksóknari fór á kostum, líkt og í dómsmálum Hildar og Kára, þegar hún hélt því statt og stöðugt fram að rétturinn til að mótmæla hlyti nú að takmarkast við 15 mínútur (það er enn á duldu hvar hún fékk þá lengd á heilann, en hún hengdi sig á svipaða lengd í dómsmálaráðuneytismálinu) og að tjáningarfrelsið skiptir nú ekki máli þegar verið er að raska vinnufrið Alþingis. Hún færð ekki rök fyrir því á hvaða hátt vinnufrið Alþingis var raskað, enda voru mótmælendur með teipað fyrir munninn og mótmælin því alveg hljóðlát. Einnig komst fólk inn og út úr húsinu að vild. Það var líklega ekki við neinu minna að búast af Línu, en í máli Kára lýsti hún því yfir að trommusláttur og söngur á mótmælum jöfnuðust á við óeirðir og því hefði lögreglunni borið að stíga inn í og stöðva 8 manna setuverkfallið með ofbeldi og handtökum. Lína spurði annað vitni Juliusar að einni spurningu „Hvernig tengist þú ákærða?“, líkt og það hafi eitthvað með málið að gera, en vitnið hafði lýst atburðarásinni nákvæmlega eins og hún sást á myndbandinu.
Verjandi Juliusar, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, stóð sig með prýði og undirstrikaði mikilvægi tjáningarfrelsis, réttarins til að mótmæla og réttsins til að vera vitni að handtökum almennra borgara. Til stuðning máli sínu vitnaði hún í fjölda mála frá Mannréttindadómstóli Evrópu sem og Landsrétti og Hæstarétti Íslands. Einnig kastaði hún góðu ljósi á fáránleika aðgerðanna þegar hún benti á að á myndbandinu má sjá að Julius hafði fengið að nýta rétt sinn til að mótmæla í rétt 1 mínútu og 45 sekúndur áður en lögreglan hóf að hrinda honum harkalega af gangstétt í almannaeign. Einnig fékk hann ekki að fylgjast með handtöku Elínborgar í meira en 4 sekúndur áður en hann var handtekinn án nokkurrar viðvörunar. Síðast en ekki síst benti Auður Tinna verjandi á að ásökun lögreglustjórans um að Julius hefði verið að reyna að koma í veg fyrir handtöku Elínborgar sé greinilega eftirá skýring, þar sem Juliusi var hvorki tilkynnt um þann lið ákærunnar við handtöku né í skýrslutöku og gögn málsins sýna að það kom fyrst til tals hjá lögreglunni rúmu ári eftir handtökuna.
Þrátt fyrir þennan endarlausa sýndarleik og kúgunartaktík Ríkisvaldsins mættu mörg í dómsal og salurinn var þéttsetinn allan tímann, sem Julius sagði að hefði gert gæfumuninn fyrir sig. Hér er brot úr tilkynningu frá Juliusi, en hann sendi hana frá sér rétt áður en dómsmálið hófst og fjallar hún um viðbrögð íslenskra yfirvalda við mótmælum og aðgerðum fólks á flótta árið 2019:
„The response by The Ministry of Justice, ÚTL and the Icelandic police has been a clear example of their traditionally hostile and racist policies: The refugees who initiated and participated in the protests have since all been deported from Iceland, the arrested activists have been dragged to court and fined.
I’d like to use this moment to remind myself and others of the importance and beauty of solidarity, of asking questions, of listening to each other, of supporting refugees, encouraging and supporting each other in speaking up for a more humane society!
It’s about time to address and fight racism in Iceland, it’s about time to shut down ÚTL and show that this society is capable of more empathy and humanity, capable of welcoming people that ask for help and seek to live here.
Thank you for your support and solidarity!“