Elínborg sakfelld á grundvelli einkennisbúningablætis dómara

Á sama tíma og þingsins bíður að afgreiða lagafrumvarp Dómsmálaráðherra sem myndi fjölga og hraða brottvísunum flóttafólks sem leitar verndar í landinu, og einbeittur brotavilji stjórnvalda gegn þeim hópi birtist í framkvæmd Útlendingastofnunar og Stoðdeildar Ríkislögreglustjóra, er hluta dómstólanna enn haldið uppteknum við að lögsækja mótmælendur sem sýnt hafa flóttafólki samstöðu.

19. greinar málin

Hér hafa þessi mál verið nefnd 19. greinar málin þar sem dómsmálin hvíla á 19. grein lögreglulaga, sem krefur fólk um skilyrðislausa hlýðni við fyrirmæli lögreglu. Þátttakendum í mótmælaaðgerðum er gefið að sök að hafa brotið þessi lög, þegar þeim var sagt að láta sig hverfa úr opnu anddyri Dómsmálaráðuneytisins þann 5. apríl 2019. Kyrrlát setumótmæli höfðu þá staðið yfir þar í um korter, þegar lögregla ákvað að leysa þau upp. Slíkar aðgerðir réttlætir lögregla með 15. grein sömu laga, um „aðgerðir í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl.“, sem heimila lögreglu „afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu“. Þannig fara þessar tvær greinar oft saman, þegar ríkisvaldinu er beitt gegn mótmælendum, sú fimmtánda og sú nítjánda: að lögregla megi skipa fólki að láta sig hverfa og fólki beri þá, sama hvað, að hlýða. Sumir þátttakendur þessara mótmæla hurfu ekki umsvifalaust á braut heldur sátu kyrr. Og það er lögbrotið sem kært er fyrir. Að þau sátu kyrr.

Svipað tilefni varð til handtöku þriggja annarra mótmælenda, en þá var haldinn nokkurskonar mótmælagjörningur sem fólst í því að standa með hendur upp í loft og límband fyrir munninum fyrir framan aðalinngang Alþingis. Hver sem vildi gat komist óhindrað inn og út úr byggingunni en samt sem áður sá lögreglan tilefni til þess að hrinda fólki og skipa því að færa sig. Einn færði sig ekki og hafði þar með framið lögbrot. Tvö önnur reyndu að krefja lögregluna um skýringar og frömdu með því einnig lögbrot, samkvæmt lögreglu og dómstólum í það minnsta.

Fyrir að sýna yfirvaldinu ekki tilhlýðilega undirgefni voru ákærð: Borys Ejryszew, Elínborg Harpa Önundardóttir, Hildur Harðardóttir, Hjálmar Karlsson, Julius Pollux Rothlaender og Kári Orrason. Skilaboðin eru hins vegar ætluð okkur öllum: að hver þau sem dirfast að hreyfa fingur til að verja aðra fyrir ofsóknum stjórnvalda verða ofsótt sjálf. Ef einhver skyldi velkjast í vafa um slíkan vilja innan opinberra stofnana hefur ákæruvaldið tekið af öll tvímæli í merkjasendingunni með því að ákæra hvert og eitt þeirra út af fyrir sig og láta málin vætla makindalega í gegnum kerfið, eitt í einu: dómur er fallinn í máli Borysar, í máli Elínborgar, í máli Kára, í máli Hjálmars og í máli Hildar. Öll sek. Um óhlýðni. Það var í Héraðsdómi, þá tekur við áfrýjun eða spurningin um áfrýjun. Aðeins Julius bíður eftir fyrirtöku á fyrsta dómsstigi. Áralangt ferli í kringum ekki neitt, til þess gert að þreyta og hræða.

Einkennisbúningur sem sönnun

Nú síðast, þann 4. maí 2021, féll héraðsdómur í máli Elínborgar, raunar fjórum málum í senn: Elínborg var ákærð í fjórum liðum fyrir þátttöku sína í þremur mismunandi mótmælum flóttafólks á Íslandi. Einnig var hún ákærð fyrir að „kjósa að standa hjá“ fremur en að „halda leið sinni áfram“ þegar lögreglan hafði afskipti af manni á almannafæri eftir að maðurinn svaraði játandi spurningu hennar um hvort hann vildi að hún stæði hjá. Elínborg var sakfelld í öllum ákæruliðum og var hún dæmd í tveggja mánaða fangelsi auk þess að vera dæmt að greiða málskostnað samtals 1.250.000 kr.

Alvarlegasti ákæruliðurinn var sá sem snéri að meintu sparki Elínborgar í fætur lögreglumanns, en henni er gert að hafa „sparkað þrívegis í fætur lögreglumanns með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli“. Elínborg neitaði þessari sök og segir að í versta falli hafi verið um kipp eða ósjálfráða hreyfingu hennar að ræða. Vitnisburður þriggja óbreyttra borgara reyndist hins vegar mega sín lítils andspænis tveimur lögreglumönnum. Í dómssal voru leiknar tvær myndbandsupptökur sem sýndu hvernig lögreglan ræðst að hópi mótmælenda sem standa í hrúgu og halda á sér hita með dansi og söng. Myndskeiðin sýna árás lögreglunnar mjög vel en Elínborg sést þar hvergi sparka í lögreglumann.

Í samantekt dómstólsins má lesa:

„Ákærða hefur alfarið neitað sök og telur að í versta falli hafi verið um kipp eða ósjálfráða hreyfingu hennar að ræða. Framburður lögreglumanns nr. 0516 sem byggt er á að hafi orðið fyrir spörkunum er mjög afdráttarlaus. Á sama veg er framburður lögreglumanns nr. 0110. Þá má á fyrirliggjandi upptöku sjá ákærðu sparka einu sinni í átt að lögreglumanninum. Er framburður framangreindra lögreglumanna í samræmi við það sem sjá má á upptökunni fyrir utan það að ákærða sést þar ekki fylgja sparkinu eftir með tveimur öðrum spörkum en aðrir lögreglumenn byrgia þó sýn að ákærðu, m.a. lögreglumaður nr. 0110 og er þessi staðsetning hans í samræmi við framburð hans.“

Á upptökunum sést hvernig lögreglan dró fólk á höndum og fótum út úr hrúgunni eftir að hafa hrint því í jörðina. Þar á meðal sést hvar Elínborg var dregin af lögreglumanni út úr hrúgunni. Dómari áleit nóg að í myndbandinu hafi hún sést „sparka einu sinni í átt að lögreglumanninum.“ Dómarinn viðurkenndi að lögreglumennirnir hafi byrgt sýn myndavélanna að atvikinu, en tók ekki til greina að sjálfur lögreglumaðurinn sem sagðist hafa séð sparkið dylur ekki aðeins hið meinta spark fyrir áhorfendum heldur snýr sjálfur, á öllum birtum myndskeiðum, hálfvegis baki í Elínborgu og lögreglumanninn sem dró hana. Þrjú vitni báru á móti að þau hefðu ekki séð Elínborgu sparka í lögreglumann. Þau afgreiddi dómarinn sem „ótrúverðug“ án þess að rökstyðja þá afstöðu frekar. Afdráttarleysið í framburði lögreglumannsins var svo ekki meira en svo að hann mundi ekki hvor fóturinn á að hafa orðið fyrir sparkinu og kvaðst hafa fengið spakrið í sköflunginn en þó snúið baki í Elínborgu. Aðspurður hvernig hann gat verið viss um að hún hefði ekki bara rekist í hann svaraði hann því til að augnaráð Elínborgar eitt og sér hefði nægt til.

Hinir ákæruliðirnir í máli ákæruvaldsins gegn Elínborgu snerust um fyrrnefndar 19. grein og 15. grein lögreglulaga. Að lögregla ákvað að kæfa mótmæli og sagði henni að fara en hún fór ekki.

Ríkisvaldið gegn ónæði

Í þeim ákæruliðum, eins og hinum, umgekkst dómari framburð lögreglumanna sem sönnunargögn frekar en vitnisburð og hunsaði vitnisburð annarra. Í þeim ákærulið sem sneri að setumótmælunum í Dómsmálaráðuneytinu, fyrrnefndan föstudag í apríl 2019, grundvallast úrskurðurinn á því að dómari segist telja Elínborgu hafa „skilið fyrirmælin“ um að yfirgefa anddyri ráðuneytisins. Þá hafi þessi fyrirmæli verið réttmæt þar sem viðvera og „háreysti“ hennar og annarra þar í anddyrinu hafi „valdið starfsmönnum ráðuneytisins ónæði“.

Allir þessir dómar, og aðrir sem fallið hafa í 19. greinar-málunum, virðast grundvallast á þeim sjálfsskilningi þeirra stofnana sem að þeim koma að það sé hlutverk lögreglunnar að leysa upp hvers kyns mótmæli ef þau valda „ónæði“, en hlutverk ákæruvaldsins og dómstólanna að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Með lögum Alþingis, starfsvenjum lögreglunnar og lagatúlkun Héraðsdóms, stendur þannig yfir langvarandi, opinber herferð gegn réttinum til mótmæla. Viðmið þessara stofnana, sameiginlega, virðist vera það eitt að einkennisbúningurinn hafi alltaf rétt fyrir sér.