Úrskurður Hildar kom lítið á óvart: sek líkt og hin fjögur.

Föstudaginn 5. apríl 2019 tók Hildur Harðardóttir þátt í litlum setumótmælum í opnu anddyrir dómsmálaráðuneytisins. Með henni sátu nokkrir aðrir. Markmiðið var að sýna samstöðu með flóttafólki á Íslandi sem hafði reynt að fá fund með dómsmálaráðherra svo mánuðum skipti en án árangurs. Eftir að hafa setið á gólfinu í tæpar 10 mínútur mætti lögreglan í dómsmálaráðuneytið og skipaði mótmælendum að hætta að mótmæla. Fát kom á mótmælendur, enda trúðu viðstaddir því að stjórnarskrárvarinn réttur þeirra til að mótmæla og tjá sig um pólitísk efni stæði geðþóttarákvörðunum lögreglu og starfsmanna ráðuneytisins hærra. Mótmælendur fengu lítinn tíma til að átta sig, en búið var að handtaka fimm einstaklinga u.þ.b. 2-3 mínútum eftir að lögreglan hóf að skipa fólki að hætta að mótmæla.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað í kjölfarið að kæra mótmælendurna fyrir brot á 15. og 19. grein lögreglulaga, sem segja eitthvað á þá leið að almenningi beri að hlýða í skipunum lögreglu séu þær til þess falnara að tryggja röð, reglu og öryggi á almannafæri. Ólíkt því sem tíðkast hefur og kveður á um í lögum ákvað lögreglustjórinn að slíta mál mótmælendanna í sundur og kæra þau eitt í einu, í stað þess að rétta yfir þeim öllum saman. Úr varð að Kári Orrason, sem var fyrstur dreginn fyrir dóm, var dæmdur sekur þann 13. október 2020. Sjö mánuðum seinna, var búið að dæma öll fimm sem handtekin voru sek. Síðasta málið var mál Hildar Harðardóttur, en dómur féll í því máli þann 12. maí 2021. Hún varð þannig síðust 5menninganna til að vera dæmd sek fyrir að sitja kyrr á almannafæri og mótmæla.

Líkt og búast má við voru dómarnir allir keimlíkir, enda um nákvæmlega sömu mótmæli og sama athæfi (eða athæfisleysi) að ræða. Dómarnir eiga það allir sameiginlegt að svera lausir við hverskonar rökstuðning fyrir úrskurði sínum, hvort sem er af lagalegu eða siðferðislegu tagi.

Í úrskurði í máli Hildar kemur fram að Hildur „kvaðst hafa vitað af sams konar mótmælum aðra daga og þá hefði lögreglan dregið fólk út úr ráðuneytinu með valdi en enginn hefði verið handtekinn. Hún kvaðst í því ljósi hafa upplifað eins og verið væri að refsa mótmælendunum 5. apríl vegna mótmælanna sem áttu sér stað dagana á undan.“ Einnig greinir hún frá því að lögreglan hafi neitað henni um þann lögmann sem hún bað um.

Fjórir lögreglumenn báru vitni í máli Hildar. Lýstu þeir aðstæðum rétt eins og þeir gerði í málum Elínborgar, Borysar og Kára, enda um sömu lögreglumenn að ræða í hvert skipti, þó að þeir hafi verið töluvert fleiri í hinum réttarhöldunum. Alvarlegustu ásaknir á hendur mótmælendunum voru þær að mótmælendur hefðu verið með „háreysti og læti“ í anddyri dómsmálaráðuneytisins og að þau hefðu verið með „ónæði fyrir starfsfólk“ auk þess sem þau voru sögð „trufla starfsemi stofnunarinnar,“ en helsta verkefnið sem truflað var var lokun stofnunarinnar sem virðist hafa verið mjög mikilvægt að koma í verk ekki mínútu seinna en 16:00.

Lítið er fjallað um vitnisburð þriggja almennra borgara en dómari rekur ágætlega málflutning Páls Ólafssonar lögmanns sem var meinað að hitta Hildi uppi á lögreglustöð þrátt fyrir að hún hafi skipað hann sem verjanda sinn.

Dómari telur að sannað sé með vitnisburði lögreglu og myndbandsupptökum að Hildur hafi ekki fylgt fyrirmælum lögreglu og því hafi mátt handtaka hana. Ekki er vikið einu orði að málsvörn verjanda Hildar, sem snérist fyrst og fremst um að fá dómara til að taka stjórnarskrávarinn mótmælarétt og tjáningarfrelsi mótmælenda til greina. Dómari skrifar einungis: „Þau ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, sem verjandi ákærðu vísa til, breyta ekki þessari niðurstöðu að mati dómsins.“ Fleiri orðum er ekki eytt í það.

Þrátt fyrir að vera dæmd sek, ákvað dómari að refsingu Hildar skyldi frestað skilorðsbundið til eins árs. Það þýðir að verði Hildur ekki dæmd sek fyrir önnur lögbrot á næsta árinu fellur refsingin úr gildi. Því er dómur Hildar frábrugðinn dómi Borysar, Kára, Elínborgar og Hjálmars sem öllum var dæmd refsing. Þó var Hildi gert að greiða málsvarnarlaun lögmannsins sem hún skipaði EKKI en sem lögreglan skaffaði henni á lögreglustöðinni; samtals tæpar 50.000 krónur. Auk þess greiddi hún lögfræðingi sínum Helgu Baldvinsdóttur 350.000 krónur.

Þess ber að geta að saksóknari í málinu, Lína Ágústdóttir, sá sig knúna til að koma því á framfæri við Hildi og verjanda hennar að hún væri ósammála sínum eigin málflutningi í málinu. Með skjálfta í röddu sagðist hún alls ekki hafa þær skoðanir á mótmælum sem hún setti fram í þeim tilgangi að sakfella Hildi, sem var sami málflutningur og hún hélt uppi gegn Borysi (sem var sakfelldur þrátt fyrir að dómari féllst á að hann hefði ekki skilið fyrirmælin sem gefin voru[!!]). Þessi undarlega framkoma afhjúpaði enn betur hversu mikið leikrit réttarhöldin öll voru og virðast hafa þjónað þeim tilgangi einum að tryggja algjör völd lögreglunnar í mótmælum hverskonar.

Eins og mál standa þurfa 5menningarnir að greiða samtals 2.713.720 isk fyrir að hafa tekið þátt í setumótmælum í anddyri dómsmálaráðuneytisins sem höfðu einungis staðið yfir í tæpar 10 mínútur þegar lögreglan réðst í þær aðgerðir að valdbeita fólk og handtaka.