Yfirlýsing vegna 19. greinar málanna

Fyrri part ársins 2019 var brotið blað í sögu réttindabaráttu fólks á flótta á Íslandi. Þá ákvað hópur fólks, sem flest áttu sameiginlegt að vera í ferli um alþjóðlega vernd hér á landi og að hafa verið haldið í einangruðum flóttamannabúðum á Ásbrú, að berjast sameiginlega fyrir bættum réttindum sínum. Með stuðningi frá fólki með dvalarleyfi á Íslandi skipulagði hópurinn baráttuherferð fyrir því að fólk á flótta fengi grundvallarmannréttindi uppfyllt. Settar voru fram fimm kröfur:

        1. engar fleiri brottvísanir,

        2. efnismeðferð fyrir öll,

        3. jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu,

        4. raunhæfur möguleiki á atvinnuleyfi,

        5. lokun flóttamannabúðanna á Ásbrú.

Herferðin sem stóð yfir í um 8 mánuði, frá desember 2018 til júlí 2019, fól í sér mótmæli, pólitíska gjörninga, upplýsingafundi, kröfugöngur, bréfaskrif til yfirvalda, fjáröflunarviðburði og margt fleira. Við sem þetta skrifum ákváðum að sýna samstöðu með fólki á flótta með því að taka þátt í þessari kröftugu réttindabaráttu. Um leið börðumst við fyrir okkur sjálf og þeim heimi sem við viljum lifa í: heimi þar sem öll njóta jafns ferðafrelsis, þar sem útlendingaandúð og rasísk kerfi heyra sögunni til og þar sem landamæri eru ekkert annað en línur á gömlum landakortum sem enginn tekur mark á lengur.

Í upphafi var hópurinn frá Ásbrú vongóður um að ná eyrum yfirvalda, enda þreytist stjórnmálafólk ekki á að segja í viðtölum að þau vilji fjalla um málefni hælisleitenda í heild sinni, en ekki eintsaklingsmál. Það kom hinsvegar fljótt í ljós að þetta sama fólk hafði lítinn áhuga á því að heyra hvað flóttafólk, og stuðningsfólk þeirra, hafði fram að færa varðandi heildina. Þvert á móti þá var okkur mætt með miklu offorsi af hálfu lögreglunnar sem beitti valdi sínu ítrekað gegn hópnum og notaði til þess piparúða, kylfur, lögreglutök og handtökur. Áberandi einstaklingar úr hópi flóttafólksins voru handteknir og brottvísað með engum fyrirvara en þeim okkar sem ekki var hægt að brottvísa voru ítrekað handtekin og sett í fangageymslu.

Það sem knýr okkur til að skrifa þessa yfirlýsingu í dag er tvennt. Annars vegar viljum við vekja athygli á þeirri ofbeldisfullu aðför sem gerð er nær daglega í allri Evrópu, á Íslandi meðtöldu, að lífi og líkömum fólks sem er skilgreint af yfirvöldum sem „flóttafólk“. Þessar aðfarir birtast í formi brottvísana, afmennskunnar, slæms aðbúnaðar, mismununar og bágrar réttarstöðu.

Hins vegar viljum við varpa ljósi á það hvers vegna við tókum þátt í þeim pólitísku aðgerðum sem urðu til þess að þau sjö okkar sem þetta ritum vorum frelsissvipt, sett í fangaklefa og ákærð fyrir brot á 19. grein lögreglulaga.

Þrjú okkar voru handtekin þann 19. mars þegar þau framkvæmdu pólitískan gjörning þar sem fólk stóð fyrir framan aðalinngang Alþingis með límband fyrir munninum og hendurnar uppi þannig sást að í lófunum stóð ritað „Stop deportations“. Gjörningurinn hafði ekki staðið lengur en í 15 mínútúr þegar lögreglan hóf að hrinda og handtaka þátttakendur. Fimm okkar voru svo handtekin á litlum setumótmælum í opnu anddyri dómsmálaráðuneytisins þann 5. apríl 2019, innan við korteri frá upphafi mótmælanna. Báðar aðgerðirnar voru til þess gerðar að þrýsta á stjórnvöld til að funda með nokkrum fulltrúum úr hópi flóttamanna, en stjórnvöld höfðu hundsað allar formlegar beiðnir um fund svo mánuðum skipti. Þetta var gert í samstöðu og samráði við fólk á flótta, sem leiddi mótmælin og aðgerðir frá fyrsta degi.

Fjögur okkar hafa nú þegar verið sakfelld fyrir þessar vægu aðgerðir og þrjú eiga enn eftir að mæta fyrir dóm.

Hér, líkt og annars staðar á vesturlöndum, hefur samstaða með fólki á flótta verið glæpavædd. Í okkar tilviki nýtti lögreglan 19. grein lögreglulaga til þess að kæfa niður samstöðuna og um leið binda enda á pólitíska tjáningu og mótmæli viðstaddra, sem hvort tveggja er varið af stjórnarskrá Íslands sem og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ákvæði 19. gr. lögreglulaga hljóðar svo: „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“ Okkur reynist erfitt að skilja hvaða lögum og reglum var verið að halda uppi í þessum tilvikum. Við höfum engin svör fengið við spurningum þar að lútandi og sjáum ekki á gögnum lögreglu að nokkuð mat hafi farið fram á því hvort nauðsynlegt hafi verið að „halda uppi lögum og reglum á almannafæri“ með þeim hætti sem gert var. Það er ekki heldur vikið að þessu í ákæru eða dómsúrskurði.

Fyrst þegar við vorum handtekin trúðum við því ekki að það væri hægt að ákæra okkur fyrir það eitt að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu þegar enginn grundvöllur er fyrir þeim skipunum sem lögreglan gefur. Við töldum að fyrir öllum slíkum fyrirmælum þyrfti að vera lagalegur grundvöllur, enda er handtaka mjög alvarlegt inngrip í líf og frelsi einstaklinga. Eftir nánari skoðun kom í ljós að þessu ákvæði hefur verið beitt á mótmælendur á Íslandi í áraraðir þegar um er að ræða mótmæli sem lögreglan og/eða yfirvöld telja óæskileg eða óþægileg að einhverju leyti. Við teljum mikilvægt að berjast gegn því hvernig 19. grein lögreglulaga er beitt að geðþótta lögreglunnar og styður þannig við alræðisvald hennar.

Enn fremur teljum við mikilvægt fyrir fólk sem vill lifa í frjálsu og réttlátu samfélagi að standa vörð um hvort annað í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi og ofríki; hvort sem um er að ræða kynþáttafordóma, hómó- og transfóbíu (hinseginfóbíu), útlendingaandúð, ableisma, hnattræna hlýnun, feðraveldið eða vestræna/hvíta yfirburðarhyggju.

Við köllum því eftir samstöðu ykkar með fólki á flótta út um allan heim og með þeim okkar sem verið er að ákæra fyrir að sýna slíka samstöðu.

Samstaða er ekki glæpur,
samstaða er eitt af þeim vopnum sem við beitum gegn kúgun!

Borys Andrzej Ejryszew
Elínborg Harpa Önundardóttir
Hildur Harðardóttir
Hjálmar Karlsson
Jónatan Victor Önnuson
Julius Pollux Rothlaender
Kári Orrason