Julius ákærður fyrir brot á 19. grein og fyrir að tálma störf lögreglu

Í dag, föstudaginn 19. mars, gaf íslenska ríkið út kæru á hendur Juliusi Pollux Rothlaender fyrir brot gegn lögreglulögum. Kæran birtist nákvæmlega tveimur árum eftir að Julius tók þátt í þöglum, listrænum mótmælagjörningi fyrir framan aðaldyr Alþingis til stuðnings flóttafólki á Íslandi þann 19. mars 2019. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. apríl.

Í ákærunni segir að Julius hafi „þriðjudaginn 19. mars 2019 óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að færa sig frá aðalinngangi Alþingis að Kirkjustræti í Reykjavík, og í kjölfarið hindrað lögreglumenn að störfum með því að stíga í veg fyrir þá er þeir voru að færa handtekinn mann [Elínborgu Hörpu, einnig ákærð fyrir sömu mótmæli] í átt að lögreglubifreið á vettvangi.“

Ákæran er undirrituð af lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins Höllu Bergþóru Björnsdóttur, sem virðist nýta hvert tækifæri til að kæra fólk sem mótmælir meðferð íslenskra yfirvalda á fólki sem leitar eftir vernd hérlendis, um leið og hún mætir á mótmæli Black Lives Matter á Íslandi til að hvítþvo ímynd íslensku lögreglunnar.

Ákæra Juliusar er síðasta ákæran sem birtist 7menningunum sem öll voru handtekin á mánuðunum mars-apríl 2019 fyrir þátttöku í mótmælum til stuðnings flóttafólks. Voru fimm af sjö einungis kærð fyrir brot á 19. grein lögreglulaga sem kveða á um að fólki beri að hlýða fyrirmælum lögreglu, óháð lögmæti þeirra. Notkun íslensku lögreglunnar á 19. grein lögreglulaga hefur verið gagnrýnd harkalega upp á síðkastið, enda kristallast í henni alræði lögreglunnar sem getur nýtt lagaákvæðið í að handtaka fólk eftir geðþóttaákvörðunum einum saman. Þá veltir maður því fyrir sér hvort að ákæruvaldið hafi ákveðið að bæta við öðru broti í tilviki Juliusar, einmitt vegna þessarrar hörðu gagnrýni.

Líkt og sjá má í myndbandsupptöku af mótmælagjörningnum og handtöku Juliusar þarf að hafa ansi einbeittan vilja til að refsa mótmælendum til þess að geta réttlætt þá ákvörðun að ákæra Julius fyrir þátttöku sína í mótmælagjörningnum 19. mars 2019. En líkt og bent hefur verið á notar íslenska ríkið (og önnur ríki/valda miklir einstaklingar) dómskerfið og málaferli sem refsingu í sjálfu sér.

Gleymum ekki að samstaða okkar skiptir máli þegar ríkið gengur fram af svo miklu offorsi gegn andófi.
Markmiðið ríkisins og lögreglunnar er að slökkva baráttuelda, keyra fólk út og binda þannig enda á hvers kyns andóf.

Við hvetjum fólk til að kynna sér mál 7menningana, leggja í púkk fyrir málskostnaði , mæta á réttarhöld (næstu réttarhöld eru þriðjudaginn 23. mars) og halda áfram að berjast gegn útlendingaandúð, rasisma, brottvísunum af glettinni alvöru og dansandi reiði.