Samstöðumálinu næstum lokið – baráttan heldur áfram!

Máli Jórunnar og Ragnheiðar lauk í Landsrétti í nóvember 2020, eftir meira en fjögurra ára óvissu. Það hefur tekið okkur nokkra mánuði að ná áttum eftir úrskurðinn og safna kröftum til að taka næstu skref. Hér er loksins stutt færsla um stöðu mála.

Upphaflega voru Ragnheiður og Jórunn ákærðar í fjórum liðum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, tveimur árum eftir að hafa reynt að stöðva brottvísun Eze Okafor á Keflavíkurflugvelli. Héraðsdómur sýknaði þær af einum liðnum, að hafa raskað öryggi flugvélarinnar. Landsréttur sýknaði þær af öðrum til viðbótar, að hafa valdið röskun á flugsamgöngum.
Eftir stóðu tveir ákæruliðir sem báðir dómstólar uppihéldu; að þær hafi reynt að tálma lögreglumenn í brottvísun Eze, og þær hafi ekki hlýtt flugþjónum í vélinni.
Héraðsdómur hafði staðhæft án frekari rökstuðnings að „tjáningar- og fundafrelsi [sæta] ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu.“ Landsréttur sveigði frá þessari túlkun, greindi á hvaða forsendum mætti skerða það frelsi, og mat frelsið meira en Héraðsdómur.
Verjandi Ragnheiðar sagði í samtali við Vísi að „dómurinn muni hafa fordæmisgildi um tjáningarfrelsi í landinu.“
Niðurstaða dómsins var að Jórunn og Ragnheiður skyldu sæta skilorði í tvö ár og að refsing myndi falla niður að því uppfylltu. Til stuðnings vísar dómurinn ekki aðeins til tjáningarfrelsis þeirra, heldur líka að „verulegur dráttur“ varð á málinu. Ákæra „var ekki gefin út fyrr en tæplega tveimur og hálfu ári eftir að atvik gerðust og nú er liðið vel á fimmta ár síðan þau áttu sér stað.“
Til viðbótar skilorðinu voru þær dæmdar til að greiða helming málsvarnarlauna, alls yfir milljón krónur hvor.

Þegar dómskerfið er jafn hægt og lögfræðiaðstoð jafn dýr og raun ber vitni, þá munu ákærur alltaf vera refsingar í sjálfu sér, hvort sem þær enda í sýknu eða ekki. Þegar skilorði Jórunnar og Ragnheiðar lýkur árið 2022, þá verða meira en sex ár liðin frá mótmælunum — og þær munu hafa verið á skilorði í þrjú og hálft ár. Þá eru ótaldar þær rúmlega tvær milljónir sem þær þurfa að borga lögfræðingum.

Það er einnig sláandi að dómstólarnir líti ekki til málalykta flóttamannsins sem þetta snerist jú allt um. Það gefur augaleið að bæði meðferðin á honum og á fólkinu sem mótmælti í hans þágu var refsing af þessari sömu gerð: bið, óvissa, lagaflækjur og lögregluvald.

Fólkið sem framkvæmir svona óformlega refsingu, hinir margfrægu andlitslausu bjúrókratar, gjalda einskis fyrir sín mistök og misbresti.

Það er undir okkur komið að standa saman og leyfa þessari refsingu ekki að vera þyngri en raun er með því að standa þétt við bakið á Ragnheiði og Jórunni. Enn vantar rúm 300.000 þúsund krónur í samstöðusjóðinn fyrir þær. Hægt er að leggja inn á þær í gegnum Styr:
rknr: 0133-26-020574
kt. 510219-1550