Samstöðumálið fer fyrir Landsrétt mánudaginn 16. nóvember

Dagsetning er nú komin á aðalmeðferð fyrir landsrétti. Málið fer fram mánudaginn næstkomandi, 16. nóvember, kl. 9 í dómssal 2. Málið fer þannig fram að fyrst verða spilaðar upptökur úr flugvélinni og síðan tekur við málflutningur lögmanna. Gert er ráð fyrir að málsmeðferðin standi til hádegis og ljúki því einhvern tíman á milli kl. 12 og 13.  

Þar sem að fjöldatakmarkanir verða enn í gildi verður ekki hægt að sitja dómshöldin en þau sem vilja sýna málinu stuðning eru velkomin fyrir utan og í anddyri. Við hvetjum öll til að vera með grímu og að virða fjarlægðartakmarkanir.

Gögn bárust ekki frá ríkissaksóknara til Landsréttar

Eitt og hálft ár er liðið frá aðalmeðferð í héraði en þær tafir sem hafa orðið á málinu eru enn óútskýrðar af hálfu ákæruvaldsins. Málinu var áfrýjað í lok apríl 2019 í kjölfar dómskvaðningar í héraði en gögn bárust ekki frá ríkissaksóknara til Landsréttar fyrr en 11 mánuðum síðar, í byrjun apríl þessa árs, og þá eftir að lögmenn Jórunnar og Ragnheiðar óskuðu eftir upplýsingum um stöðu mála og lögðu fram kvörtun vegna þessara tafa. Því eru nú liðin fjögur og hálft ár síðan atburðurinn sem ákært er fyrir átti sér stað.

Eins og áður hefur komið fram voru Jórunn og Ragnheiður ákærðar fyrir að hafa þann 26. maí 2016 staðið upp í kyrrstæðri flugvél Icelandair í stæði og skýrt farþegum vélarinnar frá því að um borð væri Eze Okafor, sem ætti að færa úr landi gegn vilja sínum og í aðstæður sem honum væru lífshættulegar. Fyrir þetta voru konurnar ákærðar, fyrir brot gegn lagagrein sem varðar öryggi flugvélarinnar (168. gr. alm. hgl. nr.19/1940) og til vara að hafa valdið verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja (176. gr. alm. hgl.). Þá voru þær sakaðar um tilraun til að tálma lögreglunni við störf (106. gr. alm. hgl.) og að hafa ekki farið að fyrirmælum flugverja (3. mgr. 42.gr., sbr. 141. gr. laga um loftferðir nr.60/1998). Þann 6. mars 2019 fór málið fram í Héraðsdómi og dæmt í því 3. apríl sama árs. Konurnar voru sýknaðar af alvarlegasta ákvæðinu og ekki taldar hafa stofnað öryggi vélarinnar í hættu, en fundnar sekar af þremur liðum ákærunnar og dæmdar til skilorðsbundinnar þriggja mánaða fangelsisvistunar.

Niðurstaða í héraði og áfrýjun málsins

Áfrýjuðu Ragnheiður og Jórunn málinu vegna stórkostlegra ágalla á málinu öllu, þar á meðal í dómi Héraðsdóms. Í texta dómsins birtist alvarlegur skortur á yfirsýn yfir atburði eins og þeir áttu sér stað og hægt er að öðlast skilning á þegar rýnt er í gögn málsins og framburð vitna.  Ekki er ljóst hvernig það telst sannað að þær hafi valdið „verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja“ þegar dómari í héraði kemst í að þeirri niðurstöðu að einungis hafi orðið hálftíma töf á brottför vélarinnar en grípur til þeirra nýmæla að sakfella Jórunni og Ragnheiði fyrir að hafi með mótmælunum valdið „verulegum óþægindum“ og „óhug“. Sú staðreynd að í dómnum er Jórunni og Ragnheiði ítrekað ruglað saman er til marks um að atburðarásin, eins og hún átti sér stað, var dómara aldrei skýr.

Það alvarlegasta er þó ef til vill að allar skírskotanir til þeirra grundvallarréttinda sem málið snýst um, réttinn til tjáningar og mótmæla, slær dómari í héraði út af borðinu með einni setningu, svohljóðandi: „Þá sæta tjáningar- og fundafrelsi ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu.“ Að mati Héraðsdóms virðist með öðrum orðum ekki þurfa langan eða ítarlegan rökstuðning til að afturkalla, í reynd, grundvallarhugmynd alþjóðasáttmála og stjórnarskrárákvæðis sem hvíla á aldalangri baráttu.

Samstaða er ekki glæpur!

Jórunn Edda og Ragnheiður Freyja