Asadullah Sarwari og sonum hans verður ekki vísað frá landinu. Shahnaz Safari verður ekki vísað frá landinu, Zainab Safari verður ekki vísað frá landinu og Amir Safari verður ekki vísað frá landinu. Þetta varð ljóst í dag, föstudaginn 5. júlí, þegar ráðherra tilkynnti um þá breytingu á reglugerð að hafi umsókn barns verið í vinnslu í tíu mánuði eða lengur, án þess að umsækjandinn beri ábyrgð á töfinni, þá megi Útlendingastofnun taka umsóknina til efnislegrar meðferðar.
Allan tímann var þetta hægt, það blasir nú við. Schengen-samkomulagið kom ekki í veg fyrir það, ekki Dyflinnarreglugerðin, ekki einu sinni Útlendingalög Íslands sjálfs – allan tímann skorti ekkert nema vilja ráðherra til að útfæra lögin á þennan hátt frekar en hinn.
Sá vilji var augljóslega aldrei til staðar hjá ráðherra sjálfum. Samstaða almennings er hreyfiaflið sem loksins lyfti þessum handlegg, skilaði þessu pennastriki. Eða smellti, nánar tiltekið, á réttan hnapp.
Það er í höfn og mikið er það gott. Mikið er það gott fyrir allt fólkið sem hér á í hlut, mikið er það gott fyrir annað fólk sem síðar meir getur verið í sömu stöðu, og mikið er það gott fyrir allt það unga fólk sem lét til sín taka í baráttu fyrir hönd skólasystkina sinna. Í þessu máli gat brugðið til beggja vona og virtist um hríð ætla að fara á hinn veginn, að stjórnvöld gerðu þeim ljóst að samhugur þeirra skipti ekki máli, vinum þeirra skyldi kasta út í buskann sama hvað. Þau hafa þess í stað, af eigin rammleik, hlotið þann lærdóm og öðlast það veganesti inn í framtíðina að barátta er ekki til einskis og að samstaða getur skipt sköpum.
Að því sögðu skulum við hafa í huga að breytingin sem ráðherra gerði loks nær aðeins til afmarkaðs fjölda mála. Óleystur er stærri vandinn: óbreytt stefna Íslands í málum flóttafólks. Hver er sú stefna?
… og sviðsstjóri Útlendingastofnunar staðfesti ásetninginn að baki Útlendingalögum
Meðal þess verðmætasta sem birtist í þessari baráttu voru ummæli fyrrverandi forstöðumanns leyfasviðs Útlendingastofnunar, sem Stundin greindi frá sama dag og ráðherrann bifaðist. Lögfræðingurinn Hreiðar Eiríksson er hugsanlega fyrsti maðurinn með beina reynslu af störfum innan stofnunarinnar sem stígur fram á opinberum vettvangi og staðfestir þaðan, innan frá, það sem blasir við öllum sem láta sig málaflokkinn varða. Hreiðar skrifar:
„Frumvarp að núgildandi útlendingalögum var Trójuhestur sem bar í sér „blauta drauma“ þeirra starfsmanna Útlendingastofnunar sem vilja beita afli stjórnvalda af fullum krafti til að „vernda“ Ísland fyrir útlendingum. Þessu var laumað til þingmanna í dulbúningi réttarbóta fyrir hælisleitendur, sem í raun voru ekki annað en staðfesting réttinda sem þeir þegar nutu. Síðan bætti Sigríður Andersen um betur og setti reglugerðir sem enn juku á möguleika til að beita innflytjendur ofríki. Allt þetta hefur svo Útlendingastofnun notað til að þjarma harkalega að fólki í krafti valds síns.“
Í umræðum sem skapast við þessa athugasemd bætir Hreiðar við:
„Eg starfaði hjá Útlendingastofnun í tíð gömlu laganna, þekki andann þar á bæ og þau „göt“ sem menn dreymdi um að loka. Það var gert með nýju lögunum. Kærunefnd útlendingamála var sett upp til að enginn þyrfti að bera pólitíska ábyrgð á harðneskjunni og lagaverkið sett þannig að nefndin gat ekki annað en tekið þátt í henni. Harðneskjan var fest í sessi og enginn þarf að standa pólitískt ábyrgur.“
Efnislega kemur þetta engum á óvart sem komið hefur nærri réttindabaráttu flóttafólks. Hins vegar blasir við spurning til þeirra sem bera ábyrgð á útlendingastefnu landsins og starfsemi Útlendingastofnunar – Dómsmálaráðuneytisins, já, en líka Alþingis og þeirra þingmanna allra flokka sem komu sér saman um lögin frá 2016: Þið sem tókuð ekki beinan, virkan þátt í plottinu, hvers vegna létuð þið ykkur standa á sama um það? Það er meira en handvömm. Hvernig hyggist þið bæta það tjón sem þegar hefur verið unnið í krafti ríkjandi stefnu og hvernig hyggist þið koma í veg fyrir frekari skaða? Hvenær verður Útlendingastofnun lögð niður?
Lifi samstaðan!
Lifi óhlýðnir embættismenn!
Niður með Útlendingastofnun!