Samstöðumálið heldur áfram

Greinagerð skilað til Landsréttar

Í dag skiluðu lögmenn Jórunnar og Ragnheiðar* greinargerðum vegna áfrýjunar samstöðumálsins til Landsréttar. Nú verður beðið eftir að ákæruvaldið skili sinni greinargerð og verður dagsetning fyrir munnlegan málflutning aðila gefin út að því loknu.

Þann 26. maí 2016 stóðu Ragnheiður og Jórunn upp í kyrrstæðri flugvél Icelandair í stæði og skýrðu farþegum vélarinnar frá því að um borð væri Eze Okafor, sem ætti að færa úr landi gegn vilja sínum og í aðstæður sem honum væru lífshættulegar. Fyrir þetta voru konurnar ákærðar, fyrir brot gegn lagagrein sem varðar öryggi flugvélarinnar (168. gr. alm. hgl. nr.19/1940) og til vara að hafa valdið verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja (176. gr. alm. hgl.). Þá voru þær sakaðar um tilraun til að tálma lögreglunni við störf (106. gr. alm. hgl.) og að hafa ekki farið að fyrirmælum flugverja (3. mgr. 42.gr., sbr. 141. gr. laga um loftferðir nr.60/1998). 6. mars 2019 var réttað í málinu fyrir héraðsdómi og í því dæmt 3. apríl sama árs. Konurnar voru sýknaðar af alvarlegasta ákvæðinu og ekki taldar hafa stofnað öryggi vélarinnar í hættu, en fundnar sekar af þremur liðum ákærunnar og dæmdar til skilorðsbundinnar þriggja mánaða fangelsisvistunar.

Tafir á málsmeðferð

Mikill dráttur hefur verið á málinu öllu, en rúmt ár er liðið frá aðalmeðferð málsins í héraði og tæp fjögur ár frá atburðunum sem umræðir. Sú töf sem orðið hefur á málinu fyrir Landsrétti orsakast enn og aftur af seinagangi ákæruvaldsins, en ríkissaksóknari skilaði einungis nýverið málsgögnum til Landsréttar. Engin ástæða hefur verið gefin fyrir seinaganginum, nú eða fyrr.

Jórunn og Ragnheiður tóku ákvörðun um að áfrýja málinu vegna stórkostlegra ágalla á málinu öllu, þar á meðal dómi Héraðsdóms. Í texta dómsins ber að kenna alvarlegan skort á yfirsýn yfir atburði eins og þeir áttu sér stað og hægt er að öðlast skilning á þegar rýnt er í gögn málsins og framburð vitna. Til dæmis má nefna að í dóminum er Jórunni og Ragnheiði ítrekað ruglað saman, sem er til marks um að atburðarásin, eins og hún átti sér stað, var dómara aldrei skýr.

Enn alvarlegra þykir þeim þó að tjáningarfrelsið – frelsið og rétturinn til tjáningar og grundvallarstoð lýðræðis og mannréttinda, er af dómara slegið út af borðinu í einni setningu: „Þá sæta tjáningar- og fundafrelsi ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu.“ Í dómi Hérðasdóms er þetta mat ekki rökstutt frekar. 

Samstaða er ekki glæpur!

Jórunn Edda Helgadóttir
Ragnheiður Freyja Kristínardóttir

*Lögmenn þeirra í Landsréttarmálinu eru Ragnar Aðalsteinsson og Sigurður Örn Hilmarsson