Á sama tíma og flóttafólk á Íslandi mótmælir því harðræði sem það sætir af hálfu yfirvalda og setur fram fimm skýrar kröfur, meðal annars um að engum sé brottvísað án þess að mál hans sé fyrst tekið til efnislegrar skoðunar, hefur Dómsmálaráðuneytið nú kynnt drög að frumvarpi um 23 breytingar á Útlendingalögum sem er nær öllum ætlað að skerða rétt flóttafólks, meðal annars með því flýta, fjölga og einfalda brottvísunum án efnislegrar skoðunar.
Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars að tilgangur þess sé „styðja við þá stefnu að beita beri Dyflinnarreglugerðinni þegar þess er kostur“. Stundin vakti fyrst athygli á frumvarpinu. Í umfjöllun Kvennablaðsins í dag, mánudag, hafa verið dregnir fram einstakir þættir þess, meðal annars ákvæði um skerðingu á rétti barna á flótta til skólavistar.
Ennfremur leynist í smáa letri frumvarpsins viðurkenning þess að þau ákvæði gildandi reglugerðar um útlendinga, sem kveða á um „forgangsmeðferð“ mála, það er um hraðar brottvísanir án efnislegrar meðferðar umsóknar, séu ólöglegar. Ráðuneytið hyggst bregðast við ólögmæti eigin reglugerðar með því að færa inntak hennar í lög.