Fimmtán manna aðgerðahópur kom í veg fyrir brottvísun 60 manns með leiguflugi, frá Stansted-flugvelli í Bretlandi, vorið 2017. Af þeim sem þar með fengu meiri tíma til að skila skjölum og njóta lögfræðiaðstoðar reyndust ellefu hafa rétt til að vera í landinu, samkvæmt breskum lögum, og hafa nú fengið landvistarleyfi. Aðgerðahópurinn var eftir sem áður ákærður og dæmdur fyrir brot á hryðjuverkalöggjöf. Í byrjun febrúar 2019 tilkynnti dómari loks um refsingu hópsins. Hann sagði meðal annars:
„Ég fellst á að ásetningur ykkar var að mótmæla“
—og ekki, þar með, að valda tjóni eða skapa hættu, og mun því enginn úr hópnum sitja í fangelsi. Þrjú þeirra fengu þó skilorðsbundinn dóm, sem virðist stafa af þátttöku þeirra í fyrri mótmælaaðgerðum, og flest voru þau dæmd til 100 klukkustunda samfélagsvinnu, auk þess sem eftir stendur að þau voru öll fundin sek. Verjendur hópsins hafa tilkynnt að dómunum verði áfrýjað. Kvennablaðið hefur greint nokkuð ítarlega frá framvindu málsins.