Elin Ersson dæmd til um 40.000 kr. sektar

Dæmt var í máli hinnar sænsku Elin Ersson í dag, mánudaginn 18. febrúar, en hún stóð upp um borð í kyrrstæðri flugvél í júlí 2018, til að koma í veg fyrir brottvísun hælisleitanda frá Afganistan. Ersson var fundin sek um að hafa brotið lög um loftferðir og dæmd til að greiða 3.000 sænskra króna sekt, andvirði tæplega 40.000 íslenskra króna.

Milljónir hafa séð myndband af aðgerð Erssons, sem hún framkvæmdi í beinni útsendingu gegnum síma sinn. Nokkrir farþegar í vélinni stóðu upp henni til stuðnings og maðurinn sem brottvísa átti var færður úr vélinni. Farþegar í vélinni fögnuðu frestun brottvísunarinnar með lófaklappi.

Lögmaður Ersson segir að dómnum verði áfrýjað.