Mánudaginn 10. maí 2021 voru greiddir tveir reikningar frá Ríkissjóði, samtals upp á 2.267.612 krónur: tvær milljónir, tvö hundruð sextíu og sjö þúsund, sex hundruð og tólf krónur. Fyrir dómi var þetta kallað málskostnaður, í heimabanka dómssekt, í öllu falli ætlað sem refsing fyrir að óhlýðnast valdboði og standa upp fyrir lífi og velferð einstaklings sem yfirvöld reyndu að láta sem væri ekki til. Kostnaðurinn var ætlaður okkur tveimur, Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur. Þökk sé breiðri samstöðu í málinu fengu yfirvöld hinsvegar hvorki að láta sem einstaklingurinn væri ekki til, né að gera þessa refsingu persónulega.
Í gegnum flugvélarmálið allt sýndi sig mikil og gleðileg samstaða. Og þó að samstaðan skipti sköpum til að halda velli andspænis þessari refsiaðferð, þá er aðferðin óþolandi: biðin, málareksturinn og svonefndur málskostnaður taka dýrmætan tíma og orku frá fólki sem annars gæti og hefði nýtt hann í annað, þar á meðal í beinan stuðning við réttindabaráttu þeirra hópa sem málin spretta af. Og til þess er vitaskuld leikurinn gerður.
Barátta ríkisvaldsins gegn samstöðu með flóttafólki, og beiting bæði lögreglu og dómstóla í þeirri baráttu, á sér nú nokkuð drjúga sögu sem mætti kaflaskipta eftir dómsmálunum: málið gegn Hauki Hilmarssyni og Jason Slade fyrir mótmælaaðgerð þeirra sumarið 2008, málið gegn Jórunni og Ragnheiði vegna mótmælaaðgerðar árið 2016, mál sem nú fyrst er að ljúka, og yfirstandandi dómsmál, 19. greinar málin svonefndu, sem höfðuð eru gegn sjö manneskjum: Borys Ejryszew, Kára Orrasyni, Hildi Harðardóttur, Hjálmari Karlssyni, Julius Pollux Rothlaender, Jónatan Victori Önnusyni, og Elínborgu Hörpu Önundardóttur. Í einu þessara mála felldi Héraðsréttur dóm í byrjun maímánaðar, það var í máli Elínborgar Hörpu, sem er öðru fremur fundin sek um óhlýðni. Um það snúast öll 19. greinar málin: brot á þeirri grein lögreglulaga sem krefst þess að almenningur hlýði lögreglu, hvaða fyrirmæli sem þaðan koma, hvort sem fyrirmælin sjálf standast lög eða ekki. Þessi fjarstæðukenndi arfur einveldisins tórir enn í lögum lýðveldisins og þykir hentugur að grípa til ef vilji stendur til að kúga þá hópa sem krefjast viðurkenningar á rétti sínum til mótmæla og annarra til lífs og frelsis. Sú viðtekna dómaframkvæmd að þessi gerræðislega grein skuli vega þyngra en stjórnarskrárbundin mannréttindaákvæði og sú refsiaðferð að láta þolendur gerræðisins sitja uppi með svonefndnan málskostnað er ólíðandi.
Við erum þakklátar fyrir samstöðuna í málinu sem höfðað var gegn okkur tveimur og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til að sýna sömu samstöðu í yfirstandandi dómsmálum af sama meiði – þeirra vegna og okkar allra.