Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu þann 13. apríl 2021 og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar, Viðars Hjartarsonar læknis. (Myndin sem fylgir hér kemur ekki frá höfundi og fylgdi ekki upprunalegu greininni. Heldur kemur hún úr myndasafni mótmælenda).
Þann 5. apríl 2019 handtók lögreglan 5 unga mótmælendur í anddyri Dómsmálaráðuneytisins þar sem þeir sátu og neituðu að yfirgefa svæðið í lok skrifstofutíma, en þar voru þeir til að leggja áherslu á að ráðherra svaraði margra mánuða ítrekaðri beiðni flóttafólks um viðtal vegna stöðu mála sinna hér. Handtökunni fylgdi síðan kæra lögreglu og dómsmál í kjölfarið.
Engum blöðum er um það að fletta að gjörningur 5 menninganna var nákvæmlega sá sami hjá öllum og engin undantekning þar á. Í lögum um meðferð sakamála 88/2008 grein 143 segir: „Ef fleiri menn en einn eru sóttir til saka fyrir þátttöku í sama verknaði, skal það gert í einu máli, nema annað þyki hagkvæmara“ og 33. grein sömu laga hljóðar svo: „Nú eru fleiri en einn maður hafður fyrir sökum í sama máli og er þá heimilt að skipa eða tilnefna sama mann verjanda beggja eða allra, ef telja má að hagsmunir þeirra rekist ekki á“. Hér er fróðlegt að kanna hvernig lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu beitti ákæruvaldi sínu gegn hinum „seku“. Það er fljótgert. Á mismunandi tíma gefur hann út eina og eina samhljóða ákæru, þannig að hver og einn sakborningur varð að útvega sér verjanda með tilheyrandi kostnaði, sem í heildina gæti orðið nærri 3 milljónum króna.
Líklega er hér stuðst við „hagkvæmnis heimildina“ í 143. greininni.
Fyrsti dómurinn féll svo í Héraðsdómi Reykjavíkur 14.okt 2020 og viðkomandi dæmdur í 10.000 króna sekt, eða sæta 2.ja daga fangelsi(!), auk málskostnaðar um 600.000 krónur. Að sjálfsögðu mátti lögreglustjóri vita að sektin fyrir „brotin“ yrði í lágmarki svo og að málskostnaðurinn gæti orðið mótmælendum þungur í skauti. Engu að síður gaf hann út eina og eina ákæru á stangli, sem þessvegna leiddi til þingfestingar á mismunandi tíma svo og málflutningi fyrir dómi. Máttur fælingarinnar getur tekið á sig ýmsar skrítnar myndir og sumar tortryggilegar…
Hvernig kemur svo málatilbúnaður lögreglustjóra okkur almenningi fyrir sjónir? Skoðum það: 6-8 lögregluþjónar tóku þátt í handtökunni, fleiri en færri skrifuðu svo skýrslu hver um atvikið, sem ákærurnar byggjast á, síðar mætir hver og einn þeirra fyrir dómara sem vitni, ekki einu sinni heldur 4-5 sinnum og reikni nú hver fyrir sig heildar komufjöldann í dómsal. Það var mikil upplifun að fylgjast með einu málinu fyrir dómi, horfa á 7 lögreglumenn, í fullum skrúða, þramma í salinn hvern á fætur öðrum og þylja sömu rulluna upp aftur og aftur. Það liggur við að maður vorkenni því ágæta fólki, sem eyðir dýrmætum tíma sínum í að hlusta á eða vitna um nákvæmlega sömu atburðarásina og viðbrögð aðila, dag eftir dag.
Halda má því fram að ekki sé mikil hefð fyrir hópmálsókn eða hópvörn hérlendis, en eins og flestir hljóta að sjá er varla til klæðskerasaumaðra mál en þetta, til að nýta ákvæðin í fyrrnefndum tveim lagagreinum. Ekki verður skilist við þetta mál án þess að minnast á hina raunverulegu „áhrifavalda“, þ.e. þáverandi bráðabirgða-dómsmálaráðherra og fyrirrennara hans, en hvorugur hafði vilja eða nennu til að svara ítrekuðu ákalli fólks, í vanda og óvissu, um nokkurra mínútna áheyrn. Vonandi sýnir núverandi ráðherra dómsmála þessum viðkvæma málaflokki meiri skilning.
Mótmælendur og lögregla.
Margnefndir fimmmenningar eru aðeins lítill hópur þess unga fólks sem lagt hefur hælisleitendum lið með ýmsum hætti og varið miklum tíma, utan náms og vinnu, til að gera þeim biðina hér bærilegri. Öll mótmæli til stuðnings skjólstæðingum þeirra hafa verið friðsöm; engin skemmdarverk, ekkert ofbeldi. Eins og í mörgum mótmælaaðgerðum öðrum hefur auðvitað komið til núnings milli þeirra og lögreglu. Þá reynir á skilning og lempni til að leysa mál farsællega. Á slíkum augnablikum er ekki vænlegt til árangurs, raunar fráleitt, að krefjast persónuskilríkja af fólki, þótt það neiti að færa sig um einhverja metra til eða frá. Lögreglan verður að endurskoða og milda alltof rúma túlkun sína á mjög umdeildri 19. grein, um skylduna til að hlýða fyrirmælum lögreglu, meðan ákvæðið um meðalhófið í 14.greininni fær minna vægi. Með áðurnefnda 19.grein að vopni fylgir svo gjarnan handtaka, harðorðar skýrslur skrifaðar, sem síðan eru notaðar til ákæru og refsing byggist á. Dapurleg niðurstaða þar sem refsingin er í hróplegu ósamræmi við verknaðinn, sem engum stafar hætta af og engu tjóni veldur, en getur auk þess orðið viðkomandi ótrúlega íþyngjandi til framtíðar. Höfum í huga að rétturinn til mótmæla er tryggður í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála.
Vald er vandmeðfarið og því verður undantekningalaust að beita af sanngirni og yfirvegun. Sé það hinsvegar fyrst og fremst nýtt sem refsivöndur, er voðinn vís.