Í dag, 29. mars, hófst vefuppboð til styrktar sjö aðgerðarsinnum sem voru handtekin fyrir þátttöku í mótmælum með flóttafólki á Íslandi og hafa nú verið ákærð fyrir brot á 19. grein lögreglulaga. Lögmenn og aðgerðarsinnar telja þessar ákærur vera alvarlega aðför að tjáningarfrelsi og réttinum til að mótmæla, sem hvort tveggja er varið af stjórnarskrá Íslands sem og mannréttindasáttmála Evrópu. Sex hinna handteknu ákváðu að reyna að sækja rétt sinn fyrir dómi, en héraðsdómur hefur dæmt þrjú af sex sek, en hin bíða enn dómhalds og úrskurða. Málskostnaður er gífurlegur og því hafa listamenn ákveðið að leggja aðgerðarsinnum lið með því að gefa verk sín sem seld verða á netuppboði Gallerý Folds .
32 listamenn hafa gefið yfir 90 verk sem má finna í þessu uppboði. Listaverkin eru ótrúlega fjölbreytt, bæði þegar kemur að listgerðum, inntaki og stíl. Uppboðið mun standa yfir frá 29. mars til 18. apríl.