Í gær lauk dómshaldi yfir mér vegna þriggja óhlýðnisbrota og eins ofbeldisbrots, en mér er gert að hafa sparkað í fætur lögreglumanns eftir að félagar hans réðust á hóp mótmælenda sem ég var í og hann dró mig á höndum og fótum eftir jörðinni, út úr hópnum. Það var mjög áhugavert að heyra í vitnisburði hans að hann sagðist fullviss um að ég væri sek vegna augnaráðsins sem ég gaf honum, en það var víst svo reiðilegt að ekki gat annað verið en að ég væri að sparka í hann.
Það að hlusta á 16 lögreglumenn og einn saksóknara lýsa glæpum sem ég á að hafa framið, flestum keimlíkum (ég hlýði ekki fyrirmælum umsvifalaust og án spurninga), var í senn bráðfyndið og gerði mig ótrúlega reiða. Með hverri mínútu sem leið af þessu rúmlega sjö klukkustunda leikriti varð skýrara og skýrara hvernig ákæruvaldið notfærir sér réttarhöld sem refsingu fyrir óhlýðni og andóf.
Ég get hinsvegar stolt sagt frá því að þó að ég sé syfjuð eftir gærdaginn, upplifi ég mig fulla af endurnýjaðri orku. Þessi orka stormaði inn um dyr héraðsdóms með öllum þeim sem komu og studdu mig og með öllum skilaboðunum sem fólk sem komst ekki á staðinn sendi mér. Ég hef sjaldan fundið jafn sterkt á eigin skinni hvað samstaða skiptir miklu máli eftir allt saman (okkar á milli var ég svona korter í að fá ógeð á orðinu samstaða, en líklega fær maður aldrei ógeð á tilfinningunni).
Það kveikti líka í mér eldinn á ný að sama dag og réttað var yfir mér var vini mínum frá Íran hafnað af Útlendingastofnun og á hann yfir höfði sér brottvísun til Ungverjalands. Brottvísunarvélin heldur áfram og malar jafn mjúkt og héraðsdómsvélin. Útiloka, inniloka, aga og merja; einkunnarorð stofnanna dómsmálaráðuneytisins.
Ég er fullkomlega sannfærð um að líkt og við eigum aldrei að láta einstaklinga mæta lögregluvaldi ein síns liðs, eigum við aldrei að láta fólkið okkar mæta dómsvaldinu ein. Gamla góða mítan um að saman erum við sterk á svo sannarlega við og ég upplifði mig ekki veika gegn valdinu heldur óendanlega sterka.
Ég vil þakka öllum sem mættu, ykkar stuðningur og nærvera var og er styrkurinn. Á meðan við bíðum eftir að dómarinn ákveði refsingu á næstu 8 vikum (af því að það er vitað að dómarinn munu dæma mig seka, ég ætla ekki að leyfa mér að efast um það í eina mínútu, enda er trú á mögulegt réttlæti þessa úldna kerfis eitt af lykilstoðum þess) vindi ég mér í það að virkja alla þessa nýju orku í að undirbúa dómsmálin sem eftir eru, en það eru tvö mál eftir og eru þau gegn Hildi (16. apríl) og Juliusi (enn ekki komin dagsetning).
Minni á samstöðusjóðinn sem nýttur verður til þess að borga málskostnað, margt smátt gerir eitt stórt:
Kennitala: 510219-1550
Reikningsnúmer: 0133-26-020574