Ragnheiður Freyja og Jórunn Edda áfrýja dómnum í samstöðumálinu; dómurinn hættulegur tjáningar- og mótmælafrelsi
Fréttatilkynning vegna áfrýjunar samstöðumálsins gegn Ragnheiði Freyju Krístínardóttur og Jórunni Eddu Helgadóttur
Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur um ákvörðun þeirra og verjenda þeirra um áfrýjun í samstöðumálinu svonefnda, vegna mótmælaaðgerðar árið 2016. Fyrir neðan tilkynninguna má finna viðbótarupplýsingar frá stuðningsfólki tvíeykisins.
———
Við undirritaðar höfum tilkynnt um áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3ja apríl sl. Ástæður þess eru ýmsar en þar vega þyngst slæm fordæmi sem dómurinn myndi skilja eftir sig og þar með möguleg neikvæð áhrif dómsins á réttindi fólksins í landinu. Ef þessum dómi er leyft að standa óbreyttum er hætta á að tjáningar- og mótmælafrelsi í landinu verði settar þröngar skorður í krafti opinna og illa skilgreindra fullyrðinga í texta hans.
Léttvæg meðferð mannréttinda
Í dag, 30. apríl 2019, sendu lögmenn okkar fyrir Landsrétti, Ragnar Aðalsteinsson og Sigurður Örn Hilmarsson, inn tilkynningu um áfrýjun fyrir okkar hönd í málinu gegn okkur þar sem við vorum meðal annars sakaðar um að hafa raskað öryggi loftfars (168. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í XVIII. kafla um almannahættubrot) og að hafa valdið verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja (176. gr. sömu laga, í XIX. kafla um brot gegn hagsmunum almennings) með aðgerðum okkar um borð í opinni, kyrrstæðri flugvél í stæði þann 26. maí 2016. Þann 3ja apríl sl. vorum við dæmdar sekar í þremur af fjórum ákæruliðum, til þriggja mánaða fangelsisrefsingar, en skilorðsbundinnar í tvö ár, auk greiðslu alls sakarkostnaðar, alls 2,2 milljóna kr.
Dómurinn þykir okkur vera illa unninn og í besta falli studdur veikum rökum, á meðan lítið sem ekkert tillit er tekið til þeirra skýru og mikilvægu lagaraka sem verjendur okkar lögðu fyrir dóminn. Hið sama má raunar segja um ákæruna sem dómurinn byggir á og málið í heild. Í texta dómsins ber að kenna alvarlegan skort á yfirsýn yfir atburði eins og þeir áttu sér stað og hægt er að öðlast skilning á þegar rýnt er í gögn málsins og framburð vitna. Til dæmis má nefna að í dóminum er okkur tveimur, Jórunni og Ragnheiði, ítrekað ruglað saman, sem er til marks um að atburðarásin, eins og hún átti sér stað, var dómara aldrei skýr.
Þá sýnir dómurinn að okkar mati engan vilja til skilnings á þeim sérstöku aðstæðum sem uppi voru. Hann virðir að vettugi ástæður okkar fyrir þeim friðsamlegu mótmælum sem við tókumst á hendur og viðheldur þannig því virðingarleysi fyrir hinum brottvísaða sem málið snerist um. Skírskotunum verjenda okkar til mannréttinda, bæði mannsins sem brottvísað var og okkar eigin, vísar dómurinn á bug með einni setningu um hvort atriði, og getur hvorug talist rökstuðningur. Um tjáningarfrelsi segir til dæmis þetta eitt: „Þá sæta tjáningar- og fundafrelsi ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu.“
Hættulegt fordæmi fangelsisdóms fyrir „óþægindi“
Það sem mestu máli skipti við ákvörðun okkar um að áfrýja málinu eru þessar og fleiri ónákvæmar og óvandaðar setningar í dómnum, en fordæmisgildi þeirra gæti að okkar mati haft hættuleg áhrif á tjáningar- og mótmælafrelsi í landinu. Annað dæmi um slíka ónákvæmni er áhersla dómsins á óþægindi. Dómurinn fellst á að mótmælin hafi ekki ógnað öryggi flugvélar eða farþega. Hann fellst líka á að engar verulegar tafir urðu á flugi vegna mótmælanna. Þess í stað grípur hann til þeirra nýmæla að staðhæfa að með mótmælunum höfum við þó valdið „verulegum óþægindum“. Ekki er ljóst á texta dómsins hverjir urðu fyrir óþægindunum en fyrir þau erum við eftir sem áður sakfelldar.
Ekki er ljóst hvers konar mótmælaaðgerðir eru yfirleitt hugsanlegar sem ekki fela í sér einhver óþægindi. Að dæma megi þátttakendur í friðsamlegum mótmælum til fangelsisvistar vegna óljósrar hugmyndar um óþægindi sem af mótmælunum stafa felur í sér hættulegt fordæmi sem vegur að tjáningarfrelsi, fundafrelsi og réttinum til mótmæla í landinu yfirleitt.
Síðast en ekki síst viljum við, með áfrýjun málsins, leggja okkar á vogarskálarnar gegn þeirri glæpavæðingu á samstöðu með flóttafólki sem hefur vaxið ásmegin um öll Vesturlönd á síðustu misserum. Við sættum okkur ekki við að vera gerðar að leiksoppum í þeirri vegferð.
Samstaða er ekki glæpur.
Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir.
———
Viðbót við fréttatilkynningu, frá stuðningsfólki Jórunnar og Ragnheiðar
Fyrirspurnir hafa borist um hvernig megi styrkja Jórunni og Ragnheiði vegna kostnaðar við samstöðumálið. Opnaður hefur verið söfnunarreikningur í því augnamiði.
Á bakvið sjóðinn stendur nýstofnað félag, Styr – samstöðusjóður. Sjóðurinn verður nýttur til að greiða lögfræðikostnað vegna málsins og hugsanlega sekt, ef dómur fellur á þann veg. Verði afgangur af söfnuninni er hugmyndin að sjóðurinn megi nýtast við sambærilegar aðstæður síðar meir, ef:
„skipuleggja þarf stuðningsviðburði, útbúa efni á prenti eða netinu til upplýsinga og til að vekja athygli á málstaðnum eða greiða þarf lögfræðikostnað einstaklinga eða hópa sem með aðgerðum sínum hafa barist fyrir réttlátara samfélagi innan sviða mannréttinda-, umhverfis- og dýraverndarbaráttu eða annarrar réttindabaráttu,“
eins og segir í lögum félagsins.
———
Reikningsupplýsingar
Styr – samstöðusjóður
Kennitala: 510219-1550
Reikningsnúmer: 0133-26-020574
Fyrir greiðslur af erlendum reikningum:
SWIFT: NBIIISRE
IBAN: IS59 0133 2602 0574 5102 1915 50