Fréttastofa RÚV birti frétt um dóminn sem féll í Héraðsdómi í dag, 3. apríl 2019, gegn Jórunni Eddu og Ragnheiði Freyju. Efnislega er fréttin í flestum atriðum rétt, en í einu þó ekki. Við sendum fréttastofunni eftirfarandi leiðréttingu:
Í frétt undir fyrirsögninni „Dæmdar fyrir mótmæli um borð í flugvél“ segir að konurnar tvær sem málið varðar hafi verið dæmdar fyrir „að hafa tafið flugið“, meðal annars. Það er ekki rétt.
Í dómnum segir:
„Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að bókað hafi verið að lögreglumaðurinn í flugvélinni hafi hringt kl. 9:20 og greint frá því að ákærðu báðar hefðu staðið upp í flugvélinni og væru með yfirlýsingar og hávaða. Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu fór flugvélin hálftíma eftir það. Svo virðist því sem seinkunin hafi ekki verið mikil en hins vegar urðu augljóslega veruleg óþægindi af þessu. Farþegar og áhöfn voru slegin óhug.“
Þannig telur dómari ekki að flugtafirnar nægi til að uppfylla skilyrði ákæruliðs sem byggði á 176. grein hegningarlaga, um verulegar truflanir á flugi, en „óþægindin“ sem stöfuðu af mótmælunum geri það.
Rétt væri því að segja að konurnar hafi ekki verið dæmdar fyrir að valda töfum á flugi, enda hafi tafirnar verið óverulegar, en þær hafi verið dæmdar fyrir að valda óþægindum.
Gott væri að sjá þetta leiðrétt.
En hvers vegna fer vanur fréttamaður rangt með þetta atriði, þegar dómurinn tilgreinir svona skýrt að tafirnar hafi ekki verið nógu miklar til að leiða til sakfellingar? Kannski vegna þess að hin raunverulega röksemdafærsla og niðurstaða dómsins er heldur hlægileg þegar hún er tekin saman í knöppu og skýru máli: Jórunn og Ragnheiður voru dæmdar í skilorðsbundið fangelsi fyrir að valda óþægindum. Að segja fréttina er að gera grín að dómstólnum.