Á skilorði í tvö ár fyrir að valda „óhug“, „óþægindum“ og „verulegri truflun“

Nú klukkan 15 síðdegis, miðvikudaginn 3. apríl 2019, var dómur kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, fyrir friðsamleg mótmæli þeirra, árið 2016, gegn brottvísun manns um borð í kyrrstæðri flugvél Icelandair. Ragnheiður og Jórunn voru sakfelldar í öllum ákæruliðum nema einum.

Sýknað í einum lið

Jórunn og Ragnheiður voru sýknaðar af ævintýralegasta lið ákærunnar, þeim sem sneri að 168. grein almennra hegningarlaga, og teljast að mati dómsins ekki hafa raskað öryggi loftfars.

„Flugvélin var enn á jörðu niðri og svo virðist sem aftari dyrum hennar hafi verið lokað en ekki þeim fremri. Þá var lögregla skammt undan. Verður háttsemin því ekki heimfærð til 168. gr. almennra hegningarlaga,“

segir dómurinn um þennan lið ákærunnar.

Sakfellt fyrir óþægindi

Ragnheiður og Jórunn voru aftur á móti fundnar sekar í öllum öðrum ákæruliðum, þar á meðal þeim sem hafður var til vara, ef brot þeirra skyldi ekki varða 168. greinina. Varaliðurinn byggði á 176. grein hegningarlaga, að þær hafi valdið verulegri truflun á rekstri samgöngutækja. Um mat á því segir dómurinn að:

„bókað hafi verið að lögreglumaðurinn í flugvélinni hafi hringt kl. 9:20 og greint frá því að ákærðu báðar hefðu staðið upp í flugvélinni og væru með yfirlýsingar og hávaða. Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu fór flugvélin hálftíma eftir það. Svo virðist því sem seinkunin hafi ekki verið mikil en hins vegar urðu augljóslega veruleg óþægindi af þessu. Farþegar og áhöfn voru slegin óhug.“

Þá er tiltekið að lögregla hafi verið kölluð til og kannað hvort öllu væri óhætt fyrir flugtak. Að öllu samanlögðu teljist það „veruleg truflun“ og varði því 176. greinina.

Jórunn og Ragnheiður voru fundnar sekar um brot á 2. mgr. 106. greinar hegningarlaga, með því að reyna að koma í veg fyrir að lögreglumaður vinni skyldustarf, það er framkvæmi brottvísunina.

Þá voru þær fundnar sekar um að hafa ekki hlýtt flugfreyjum „um góða hegðun og reglu í loftfari“ þegar þeim var sagt að setjast. Það varðar víst 3. mgr. 42. gr. laga um loftferðir.

Öllum vörnum vísað á bug

Dómurinn vísar öllum málsvörnum á bug. Skírskotun verjanda til mannréttinda, mannúðarsjónarmiða og ákvæðis hegningarlaga um þá skyldu að koma manni í lífshættu til hjálpar, vísar dómurinn á bug með þeim orðum að ekki hafi verið „sýnt fram á að Eze Okafor hafi verið í svo bráðri hættu“.

Um réttinn til mótmæla segir eingöngu: „Þá sæta tjáningar- og fundafrelsi ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu“. Það mat er ekki rökstutt frekar.

Dómurinn fellst raunar á að Jórunni og Ragnheiði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu verið sagt að málið varðaði önnur lagaákvæði en síðan var ákært fyrir, en segir einfaldlega að það skipti engu máli. Orðrétt:

„Þá skiptir engu máli þótt ákærðu hafi verið kynnt við skýrslutöku hjá lögreglu að háttsemi þeirra varðaði við önnur lagaákvæði en ákært er fyrir.“

Dómurinn rökstyður þetta álit ekki frekar.

Fjölmennt var í og við dómsal 402 þetta síðdegi.

Skilorð í tvö ár

Fjölmennt var í dómsal 402 við Lækjartorg þetta síðdegi, svo fjölmennt að viðstöddum sýndist dómaranum, Barböru Björnsdóttir, bregða nokkuð þegar hún gekk fram á margmennið, sem teygði sig fram á gang. Um þetta ber þremur óháðum heimildamönnum þessa miðils saman.

Í dómnum er sagt litið til þess að langt sé liðið frá brotunum og að Jórunn og Ragnheiður hafi ekki áður gerst sekar um refsivert brot. Á móti komi að brotin hafi verið „unnin í félagi, en þær stóðu saman að undirbúningi og framkvæmd verknaðarins“ sem lög leyfa að sé metið til þyngingar á refsingu.

Að því sögðu dæmdi Héraðsdómur þær Ragnheiði og Jórunni til þriggja mánaða fangelsis, án afplánunar haldi þær almennt skilorð í tvö ár. Þá var þeim báðum gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna, alls á þriðju milljón króna.

Heimildir okkar herma að þegar dómarinn lauk lestri dómsorðsins hafi áheyrendur í salnum púað.