Liz Fekete er forstöðukona hugveitunnar Institute of Race Relations (IRR) í London, og hefur starfað innan hennar í 35 ár. Á síðasta ári kom út eftir hana bókin Europe’s Fault Lines: Racism and the Rise of the Right. Bryndís Björnsdóttir tók viðtal við Fekete, sem birtist í Kvennablaðinu um miðjan desember 2018. Í viðtalinu ræddu þær meðal annars um lykilhugtak úr bók Fekete, yfirstandandi glæpavæðingu samstöðu og mannúðar. Fekete sagði meðal annars:
„Í Belgíu er enn eitt afar alvarlegt mál í gangi, ákærur gegn 12 einstaklingum að meðtalinni aðalritstjóra belgísku útgáfu kvennatímaritsins Marie Claire. Þau leyfðu förufólki að hafast við á heimilum sínum og sæta nú ákæru, ekki aðeins fyrir mansal heldur fyrir aðild að glæpasamtökum. Það er gríðarlega alvarleg ásökun. Á grísku eynni Lesvos sættu sjálfboðaliðar í mannúðarstarfi á vegum samtakanna Emergency Response Centre International (ERCI) handtöku. Tvö þeirra, Seán Binder og Sarah Mardini, ferðuðust til Grikklands til að bjarga mannslífum og sátu í varðhaldi um langa hríð, sökuð um njósnir, ólögmæta aðstoð við útlendinga og aðild að glæpasamtökum. Persónulega held ég ekki að þessi yfirstandandi stigmögnun í þyngd ákæranna sé hending.“