Vald án vits

Í desember 2018 skilaði Ríkisendurskoðun úttekt á starfsháttum Útlendingastofnunar, sem undir stofnanalegu rósamáli fól í sér áfellisdóm, ef ekki nokkra. Meðal annars kom þar fram að Útlendingastofnun hefur „ekki sett sér fastmótaðar verklagsreglur við mat og greiningu á einstökum málum umfram það sem leiðir af stjórnsýslulögum og útlendingalögum“. Samkvæmt skýrslunni hlýtur starfsfólk stofnunarinnar heldur enga reglubundna þjálfun. Þá brýtur stofnunin lög um opinber skjalasöfn, samkvæmt úttektinni, með því að eyða gögnum um hælisleitendur um leið og þeim hefur verið brottvísað. Í krafti reglugerðar frá árinu 2017 getur starfsfólk stofnunarinnar tekið ákvörðun um brottvísun, í skilgreindum „forgangsmálum“ að loknu einu viðtali, án skriflegs rökstuðnings.

Með öðrum orðum getur starfsfólk án sérþekkingar á sviðinu, án þjálfunar eða reynslu, tekið ákvörðun um að vísa fólki úr landi án skilnings á aðstæðum þess, án skriflegs rökstuðnings og loks þurrkað út slóðina með því að eyða gögnum um ferlið jafnóðum.


Myndrit frá Kvennablaðinu, unnið úr gögnum Eurostat og Útlendingastofnunar.

Þessi ófaglega nálgun stofnunarinnar skilar líka óvenjulegum niðurstöðum. Útlendingastofnun hefur ekki skilað ársskýrslu síðan árið 2014. Gögn sem þó liggja fyrir frá árinu 2016 sýna að þá lauk þrefalt færri umsóknum um vernd með jákvæðri afgreiðslu á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.


Úttekt Ríkisendurskoðunar er ekki fyrsti áfellisdómurinn yfir starfsháttum Útlendingastofnunar. Árið 2017 skilaði Alþjóðamálastofnun HÍ skýrslu til Innanríkisráðuneytisins og Velferðarráðuneytisins sem hét Greining á þjónustu við flóttafólk. Þar sagði einfaldlega:

„Tillögur til úrbóta sem hér eru kynntar gera ráð fyrir því að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd“

Enn hefur það ekki orðið úr. Á meðan er það aftur og aftur og aftur tilfellið að réttlát meðferð umsókna um vernd er háð athygli almennings og getu til inngripa.